Það voru mistök hjá Tottenham að reka Harry Redknapp. Þetta segir Joe Jordan sem gegndi hlutverki aðstoðarmanns Redknapps hjá Lundúnaliðinu.
Forráðamenn Tottenham ákváðu fyrr í þessum mánuði að víkja Redknapp frá störfum en hann hafði verið við stjórnvölinn hjá félaginu í rúm fjögur ár.
„Undir stjórn Harrys tók liðið miklum framförum og sú þróun hefði haldið áfram ef hann hefði verið áfram við störf. Hann var með leikmenn í sigtinu sem hann vildi fá og ég er sannfærður um að liðið hefði gert enn betri hluti á komandi tímabili,“ segir Jordan.
Portúgalinn Andre Villa-Boas tekur við stjórastarfinu hjá Tottenham og er líklegt að hann verði kynntur til leiks á morgun.