Portúgalinn André Villas-Boas hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins Tottenham og er samningur hans til þriggja ára.
„Það er með ánægju sem félagið tilkynnir að André Villas-Boas hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri félagsins,“ segir á opinberu twitter síðu Tottenham
Villas-Boas tekur við Tottenham-liðinu af Harry Redknapp, sem á dögunum var sagt upp störfum, og kom sú ákvörðun mjög á óvart.
Tottenham verður annað Lundúnaliðið sem André Villas-Boas stýrir en hann var síðastliðið sumar ráðinn knattspyrnustjóri Chelsea. Hann gerði þriggja ára samning við Chelsea í júnímánuði 2011 en var rekinn frá störfum í mars á þessu ári.
Gylfi Þór Sigurðsson verður mjög líklega fyrsti leikmaðurinn Villas-Boas kaupir til Tottenham en búist er við því að Gylfi verði kynntur til sögunnar sem nýr leikmaður Tottenham á morgun eða síðasta lagi í vikulok.