Stefnt er að því að skrá enska knattspyrnufélagið Manchester United í Kauphöllina í New York. Hyggjast eigendurnir safna 100 milljónum dollara í hlutafjárútboði. Nota á fjármunina til að greiða niður skuldir. Síðasta sumar stefndi félagið á að afla eins milljarðs dollara með skráningu í Kauphöllina í Singapúr. Morgan Stanley, ráðgjafinn við þá skráningu, varaði hins vegar við því að leggja af stað í þá vegferð vegna óróleika á fjármálamörkuðum, herma erlendir miðlar.
Bandaríska fjölskyldan Glazer keypti Manchester United fyrir 790 milljónir punda árið 2005. Stuðningsmenn liðsins hafa harðlega gagnrýnt fjölskylduna fyrir að skuldsetja knattspyrnuveldið um of. Fjölskyldan á einnig NFL-liðið Tampa Bay Buccaneers.
Manchester United var skráð í Kauphöllina í London áður en Glazer-fjölskyldan yfirtók félagið. Þrátt fyrir þessa hlutafjáraukningu er búist við því að Glazer-fjölskyldan muni enn halda völdum yfir knattspyrnufélaginu, því stefnt er að því að vera með bæði A- og B-hlutabréf. B-hlutabréf myndu vera tíu sinnum atkvæðameiri en A-bréfin.
Skuldir Manchester United voru 423,2 milljónir punda, um 84 milljarðar króna, í lok mars. Hagnaður félagsins jókst í 15,6 milljónir punda á fyrstu níu mánuðum ársins fram í lok mars, en á sama tíma fyrir ári var hagnaður 11,8 milljónir punda.
Samningar um að sjónvarpa leikjum í ensku úrvalsdeildinni eru liðunum drjúg tekjulind. Þeir eiga í raun sinn þátt í því að gera enska boltann að velheppnaðri útflutningsvöru. Á síðasta ári halaði Manchester United inn 117 milljónir punda fyrir að selja sjónvarpsréttinn en 98 milljónir punda árið 2009.
Ein af hættunum sem stjórnendur Manchester United þurfa að horfast í augu við stafar af vellauðugum eigendum annarra knattspyrnuliða sem nota sína djúpu vasa til að kaupa frábæra leikmenn og þjálfara. Í ljósi þess býst klúbburinn við að launakostnaður hans muni halda áfram að aukast.