Ryan Giggs, hinn reyndi leikmaður Manchester United, hefur verið skipaður fyrirliði breska landsliðsins í knattspyrnu sem keppir á Ólympíuleikunum í London.
Stuart Pearce, þjálfari liðsins, staðfesti þetta og frá því er skýrt á vef enska knattspyrnusambandsins.
Giggs er einn af þremur eldri leikmönnum í breska liðinu, ásamt Craig Bellamy frá Liverpool og Micah Richards frá Manchester City, en hvert lið má nota þrjá leikmenn sem eru eldri en 23 ára. Giggs hefur 12 sinnum orðið enskur meistari með Manchester United, tvisvar Evrópumeistari og fimm sinnum bikarmeistari, en þetta verður í fyrsta skipti sem hann tekur þátt í alþjóðlegri lokakeppni landsliða, þar sem Wales hefur aldrei komist í slíka keppni á hans ferli.
Fyrsti opinberi leikur breska liðsins verður vináttuleikur gegn Brasilíumönnum í Middlesbrough 20. júlí og það verður í fyrsta skipti í hálfa öld sem sameiginlegt lið Bretlands spilar landsleik.