Enska knattspyrnufélagið Nottingham Forest skýrði frá því á vef sínum rétt í þessu að knattspyrnustjórinn Steve Cotterill væri hættur störfum frá og með deginum í dag.
Cotterill fundaði í gær með nýjum eigendum Forest, Al-Hasawi fjölskyldunni frá Kúveit, og í framhaldi af því hafa þeir ákveðið að ráða nýjan stjóra, til að framfylgja langtímasýn sinni með félagið, að því er segir á vef Forest.
Cotterill eru þökkuð góð störf á erfiðum tíma og fyrir að halda liðinu í ensku B-deildinni á síðasta tímabili en staðan verði ekki rædd frekar að sinni.
Cotterill, sem er 47 ára gamall, tók við Forest á síðasta ári en stýrði áður liðum Portsmouth, Notts County, Burnley, Stoke og Cheltenham, ásamt Sligo Rovers á Írlandi. Hann var talsvert í fréttunum hér á landi árið 2002 þegar Íslendingarnir sem þá áttu Stoke City réðu hann sem knattspyrnustjóra. Eftir aðeins 13 leiki við stjórnvölinn þar sagði hann af sér til að gerast aðstoðarstjóri Sunderland og hefur allar götur síðan fengið kaldar kveðjur þegar hann hefur mætt með sín lið á Britannia leikvanginn í Stoke.