Gerir Ben Haim útaf við Portsmouth?

Tal Ben Haim fær laun sem Portsmouth getur alls ekki …
Tal Ben Haim fær laun sem Portsmouth getur alls ekki greitt. Reuters

Enska knattspyrnufélagið Portsmouth er enn og aftur komið á ystu nöf og nú er það fyrst og fremst vegna samnings við einn leikmann sem vill ekkert gefa eftir og fá sín umsömdu laun.

Portsmouth, sem varð enskur bikarmeistari vorið 2008, með Hermann Hreiðarsson innanborðs, er búið að fara tvívegis í greiðslustöðvun síðustu tvö ár og féll úr B-deildinni í vor eftir stigamissi af þeim sökum.

Árið 2009 keypti Portsmouth ísraelska varnarmanninn Tal Ben Haim af Manchester City og samdi við hann til fjögurra ára. Sá samningur er félaginu nú stærsti fjárhagslegi bagginn sem ógnar tilvist þess. Ben Haim fær nefnilega 36 þúsund pund á viku, rúmar sjö milljónir króna, og neitar að gefa nokkuð eftir.

Á meðan hefur greiðslustöðvunarstjóri Portsmouth, Trevor Birch, sett launaþak á leikmenn liðsins sem fá að hámarki 5.000 pund í vikulaun, eða tæpa eina milljón króna. Það nær hins vegar ekki yfir samning Ísraelans.

Auðkýfingurinn Bairam Chainrai hyggst kaupa Portsmouth og bjarga því úr vandræðunum en eitt skilyrðanna er að launahæstu leikmennirnir hverfi á brott.

„Ben Haim er tákn alls þess sem hefur farið úrskeiðis hjá Portsmouth og þau hrikalegu laun sem voru í gangi síðustu fjóra til fimm mánuðina áður en félagið fór í fyrsta skipti í greiðslustöðvun. Í samningi hans voru engar klausur um hvað myndi gerast ef liðið félli um deild, og hér erum við í þriðju efstu deild að reyna að semja okkur út úr þessu. Leikmaðurinn og umboðsmaður hans eru ekki aðalsökudólgarnir í málinu, en þeir aðstoða okkur ekkert. Hann er ekki eini leikmaðurinn en samningur hans er sá langstærsti,“ sagði Birch í viðtali við The Independent.

„Skuldunautarnir hafa samþykkt tilboð Chainrais en það er háð því að ég nái að semja við þessa leikmenn. Ég vinn að því dag og nótt að reyna að sýna þeim fram á að við séum að falla á tíma,“ sagði Birch.

Aðspurður hvort Portsmouth myndi líða undir lok ef samningar tækjust ekki svaraði hann: „Það gæti gerst eftir tvær til þrjár vikur. Og þá munu leikmennirnir ekki fá neitt. Tilvist félagsins hangir á bláþræði. Stjórinn Michael Appelton getur ekki samið við nýja leikmenn því kannski verður ekkert félag til staðar,“ sagði Trevor Birch.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert