Redknapp: Verðum að bjarga Portsmouth

Nwankwo Kanu fagnar marki með Portsmouth í úrvalsdeildarleik.
Nwankwo Kanu fagnar marki með Portsmouth í úrvalsdeildarleik. Reuters

Harry Redknapp, fyrrum knattspyrnustjóri Portsmouth, segir að allt verði að leggja í sölurnar til að bjarga sínu gamla félagi, sem varð enskur bikarmeistari undir hans stjórn árið 2008 en á nú á hættu að verða lagt niður vegna fjárhagsörðugleika.

Fyrr í vikunni skýrði greiðslustöðvunarstjóri Portsmouth, Trevor Birch, að félagið yrði lagt niður áður en keppnistímabilið hefst í næsta mánuði ef ekki tækist að semja við launahæstu leikmennina um að láta af launakröfum sínum.

Tal Ben Haim og Nwankwo Kanu hafa hvor um sig krafið Portsmouth um 3 milljónir punda sem þeir eiga inni í launagreiðslum hjá félaginu.

„Ég ætla að hringja í Kanu í dag og kanna hvort ég  geti gert eitthvað. Ég fékk hann til Portsmouth og samdi við hann til eins árs og þá sagði Tony Adams við mig að ég hlyti að vera brjálaður því hann væri búinn að vera sem leikmaður. Núna, sex árum síðar, er hann enn hjá félaginu," sagði Redknapp við ESPN í dag.

„Ef leikmenn eru með samning og eiga inni peninga er skiljanlegt að þeir ætlist til þess að fá greitt. En ef félagið verður lagt niður fá þeir ekki krónu. Þeir verða að skoða það gaumgæfilega. Það verður að bjarga Portsmouth. Þetta er frábært félag með mikla sögu og hefðir. Það yrði stórslys ef það yrði lagt niður. Stuðningsmenn Portsmouth eru magnaðir. Þeir sem búa í Portsmouth, halda með Portsmouth. Sá sem gengur um bæinn sér engan í treyjum frá Manchester United eða Arsenal," sagði Redknapp.

Hann var stjóri félagsins frá 2002 til 2008, að einu ári undanskildu þegar hann fór til erkifjendanna í Southampton en sneri síðan aftur. Redknapp fór síðan eftir að Portsmouth varð bikarmeistari 2008 og gerðist stjóri hjá Tottenham, þar sem hann var þar til honum var sagt upp í vor.

Nwankwo Kanu og Harry Redknapp í bikarúrslitaleiknum 2008 þar sem …
Nwankwo Kanu og Harry Redknapp í bikarúrslitaleiknum 2008 þar sem Kanu skoraði sigurmarkið. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert