Wenger: Ekkert lið boðið aftur í Van Persie

Er áhugi liða á Van Persie að dvína?
Er áhugi liða á Van Persie að dvína? Reuters

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, segir að lítið sé að gerast í málum hollenska framherjans Robin Van Persie sem ætlar sér ekki að skrifa undir nýjan samning hjá Arsenal og vill burt frá Emirates.

Manchester-liðin bæði hafa boðið í Hollendinginn en fengið afsvar frá Arsenal. Hvorugt liðanna hefur haft samband aftur við Arsenal og þá virðist áhugi ítalsku meistaranna í Juventus vera að dvína.

„Akkurat þessa stundina eru málefni Van persie mér ekki ofarlega í huga,“ segir Arsene Wenger. „Við höfum ekki fengið nein tilboð þannig hann er okkar leikmaður. Þannig er það. Það er enginn búinn að hafa samband við okkur aftur frá City eða United.“

Aðspurður á blaðamannafundi hvort hann hefði rætt við Van Persie um að framlengja samning sinn reiddist Wenger og sagði:

„Ég er búinn að tala um það og ætla ekki að tala um það aftur. Skilurðu það? Við erum að undirbúa okkur fyrir tímabilið og það snýst um fleiri en einn leikmann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert