Gylfi Þór Sigurðsson tryggði Tottenham sigur á bandaríska liðinu New York Red Bulls, 2:1, í sýningarleik frammi fyrir rúmlega 20 þúsund áhorfendum í New York í kvöld, með stórglæsilegu marki.
Guðlaugur Victor Pálsson lék seinni hálfleikinn með New York sem var yfir í hálfleik, 1:0. Gylfi lagði upp jöfnunarmarkið á 59. mínútu - tók hornspyrnu og sendi beint á kollinn á Gareth Bale sem skallaði boltann í netið, 1:1. Annað markið sem Gylfi leggur upp fyrir Walesbúann snjalla í Ameríkuferðinni.
Á 64. mínútu tók Gylfi síðan góðan sprett og sendi síðan boltann með glæsilegu skoti upp í markhorn heimamanna, 2:1. Það reyndist sigurmarkið en rétt á eftir skaut Michael Dawson í stöng eftir hornspyrnu Gylfa, sem var síðan skipt af velli á 82. mínútu.
Leikmenn Tottenham fengu verðlaun í leikslok en spilað var um veglegan verðlaunagrip, Barclays New York Cup.
Lið Tottenham: Gomes - Walker (Naughton 60.), Dawson, Vertonghen (Gallas 46.), Assou-Ekotto (Bassong 82.) - Bentley (Kane 46.), Huddlestone (Jenas 46.), Gylfi (Kaboul 82.), Livermore (Carroll 61.), Lennon (Smith 82.) - Bale.