Manchester United og Arsenal hafa náð samkomulagi um kaup United á Hollendingnum Robin van Persie. Þetta er staðfest á heimasíðu United en framherjinn á þó eftir að gangast undir læknisskoðun og semja um sín persónulegu kjör.
Kaupverðið er talið nema 24 milljónum punda.
Van Persie var markahæsti og besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð. Hann er 29 ára gamall og átti eftir eitt ár af samningi sínum við Arsenal.
Englandsmeistarar Manchester City, Juventus og fleiri félög voru á höttunum eftir Van Persie en hann mun nú að öllum líkindum leika á Old Trafford. Þar eru fyrir framherjar á borð við Danny Welbeck, Wayne Rooney og Javier Hernández.