„Við bjuggumst aldrei við því að geta fengið Van Persie. Fyrir hálfu ári hefði maður ekki trúað því,“ sagði sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, á fréttamannafundi áðan þar sem flestar spurningar snerust um komu Hollendingsins Robins van Persie frá Arsenal.
„Ég hélt að Arsenal myndi ekki láta hann fara. Þegar ég las að hann hefði neitað að skrifa undir nýjan samning ákváðum við að láta til skarar skríða. Þetta hefur verið langt ferli,“ sagði Ferguson.
„Arsene [Wenger] vissi að strákurinn vildi fara. Hann vissi að hann vildi koma til okkar. Þetta gerði okkur auðveldara fyrir þegar kom að því að semja um kaupverðið. Hann [Wenger] gæti rekið pókerskóla í Govan. Hann fékk frábært verð en við erum líka ánægðir með lyktir málsins,“ sagði Ferguson en talið er að kaupverðið nemi 24 milljónum punda þegar allt er talið.