Arsenal hefur staðfest að félagið hafi komist að samkomulagi við Barcelona um sölu á miðjumanninum Alex Song. Hann mun nú ferðast til Spánar til að gangast undir læknisskoðun og ganga frá sínum málum.
Song var í stóru hlutverki hjá Arsenal á síðustu leiktíð og lagði upp fjölda marka en hann er 24 ára gamall og kom til Arsenal fyrir sjö árum síðan.
Talið er að Arsenal ætli að fá Nuri Sahin, miðjumann Real Madrid, að láni út leiktíðina samkvæmt frétt BBC.
Arsenal hafði áður selt annan lykilmann frá síðustu leiktíð, Robin van Persie, til Manchester United. Liðið gerði markalaust jafntefli í fyrsta leik tímabilsins við Sunderland í dag og var Song ekki með í þeim leik.