Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal sagði lið sitt einfaldlega ekki hafa náð að skapa sér nægilega mörg færi til að skora þegar það gerði markalaust jafntefli við Sunderland í fyrsta leik sínum á keppnistímabilinu í dag.
„Okkur tókst ekki að nýta þessi fáu færi sem við fengum. Þeir vörðust mjög vel allan leikinn. Við vorum ekki nægilega beittir og það vantaði meiri gæði í okkar leik, sértaklega hefðu sendingarnar mátt vera nákvæmari,“ sagði Wenger.
„Leikkerfið virkaði ekki með þrjá framherja inná. Það vantaði jafnvægi í þetta hjá okkur og við sköpuðum ekki nóg,“ bætti Wenger við.
Þetta var fyrsti leikur Arsenal án Robin van Persie sem farinn er til Manchester United en hann skoraði 30 mörk í deildinni á síðustu leiktíð.
„Ég neita því ekki að við misstum heimsklassaleikmann og það verður afar erfitt að fylla hans skarð. Lukas Podolski er ekki í líkamlegu standi til þess strax, hann þarf að ná upp meiri hraða. Kannski vantaði okkur meira skapandi leikmann og við hefðum mátt vera einbeittari á fremsta vallarþriðjungnum,“ sagði Wenger.