Slagur stórvelda án sigurs

Daniel Agger var spariklæddur í stúkunni í síðasta leik Liverpool …
Daniel Agger var spariklæddur í stúkunni í síðasta leik Liverpool en hann getur spilað gegn Arsenal í dag. AFP

Hvorki Liverpool né Arsenal hafa kætt stuðningsmenn sína sérstaklega í fyrstu tveimur umferðum ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu, og ekki voru þessi gömlu stórveldi í slagnum á lokadegi félagaskiptanna á föstudaginn því hvorugt bætti við sig nýjum leikmanni.

Arsenal er með tvö stig og hefur ekki skorað mark, og Liverpool er með eitt stig eftir tvær umferðir. Stuðningsmenn a.m.k. annars liðsins verða að sætta sig við að vera án sigurs í fyrstu þremur leikjunum því þau mætast í fyrsta leik dagsins en hann hefst á Anfield klukkan 12.30.

Jafntefli í dag þarf ekki að koma sérstaklega á óvart. Sex af síðustu tíu leikjum liðanna í úrvalsdeildinni hafa endað með skiptum hlut og Liverpool hefur aðeins einu sinni tekist að vinna Arsenal í þessum 10 viðureignum.

Mark í uppbótartíma er líka nokkuð sem má búast við þegar þessi lið eigast við. Í síðustu sjö leikjum þeirra á milli í úrvalsdeildinni hafa sjö mörk verið skoruð á 90. mínútu leiksins eða síðar.

Liverpool varð fyrir áfalli í vikunni þegar miðjumaðurinn Lucas meiddist á ný og gæti verið frá keppni næstu þrjá mánuðina vegna þess. Hins vegar kemur Daniel Agger inn í liðið á ný eftir að hafa afplánað eins leiks bann.

Wojciech Szczesny gæti komið í mark Arsenal á ný en hann missti af markalausa jafnteflinu gegn Stoke eftir að hafa fengið högg á rifbeinin. Þá er Laurent Koscielny leikfær á ný.

Tveir aðrir leikir fara fram í dag og hefjast báðir klukkan 15. Nýliðar Southampton fá Manchester United í heimsókn og Newcastle tekur á móti Aston Villa. Bæði United og Newcastle eru með þrjú stig eftir tvær umferðir en bæði Southampton og Aston Villa hafa tapað tveimur fyrstu leikjum sínum í deildinni.

Þá er Íslendingaslagur í B-deildinni klukkan 13 þegar Cardiff fær Wolves í heimsókn. Aron Einar Gunnarsson og Heiðar Helguson leika með Cardiff og þeir Björn Bergmann Sigurðarson og Eggert Gunnþór Jónsson með Úlfunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert