Steve Kean, knattspyrnustjóri Blackburn Rovers, bætti þremur nýjum leikmönnum í hóp sinn síðasta föstudag, án þess að hafa nokkurn tíma séð þá spila.
Blackburn féll úr úrvalsdeildinni í vor og stefnan hefur að sjálfsögðu verið sett beint á úrvalsdeildina á ný. Liðið er taplaust í fyrstu fjórum umferðunum í B-deildinni, hefur unnið tvo leiki og gert tvö jafntefli.
Pólski markvörðurinn Grzegorz Sandomierski og Portúgalarnir Nuno Henrique og Diogo Rosado sömdu við Blackburn á föstudaginn, lokadag félagaskiptanna en Kean treysti þar alfarið á ráðgjafa félagsins, Shebby Singh.
„Ég hef ekki séð þá spila sjálfur. Nú eru þeir komnir til félagsins og við getum skoðað þá almennilega. Shebby fann þessa leikmenn og er mjög spenntur fyrir hæfileikum þeirra. Það eru aldrei of margir góðir leikmenn í hópnum. Við teljum okkur geta bætt alla þá sem koma til okkar og látið þá aðlagast liðinu fljótt og vel. Ef þeir sýna strax að þeir séu klárir í slaginn fara þeir beint í liðið," sagði Steve Kean við BBC.
Blackburn er í eigu indverskra kaupsýslumanna, sem eru kenndir við kjúklingaframleiðendurna Venky's en þeir keyptu félagið í nóvember 2010, ráku Sam Allardyce úr starfi knattspyrnustjóra og réðu Kean í staðinn. Þeir hafa síðan haldið tryggð við hann þrátt fyrir slæmt gengi liðsins.