Gerrard: Þurfum að vera þolinmóðir

Steven Gerrard og Roy Hodgson þjálfari á fréttamannafundi Englendinga í …
Steven Gerrard og Roy Hodgson þjálfari á fréttamannafundi Englendinga í Chisinau í dag. AFP

Steven Gerrard, fyrirliði enska landsliðsins í knattspyrnu, segir að liðið og þjálfarinn búi sig undir erfiðan leik gegn Moldóvu annað kvöld þegar þjóðirnar mætast í Chisinau í fyrsta leiknum í undankeppni heimsmeistaramótsins.

„Það getur verið erfitt að brjóta niður mótherja eins og þessa, en sem betur fer erum við með marga leikmenn í okkar hópi sem spila með toppliðunum í úrvalsdeildinni. Þeir eru vanir því að mæta liðum sem verjast af krafti með öllum 11 mönnunum," sagði Gerrard á fréttamannafundi í Chisinau í dag.

„Við verðum að vera þolinmóðir og ekki ætla okkur um of, og þá skiptir ekki máli hvenær við skorum eða hvernig við vinnum, svo framarlega sem okkur tekst það," sagði Gerrard.

Hann sagði að markmið liðsins væri að hefja undankeppnina á sex stigum í tveimur leikjum en enska liðið fer heim eftir leikinn annað kvöld og mætir Úkraínu á Wembley á þriðjudaginn.

„Með því fengjum við sjálfstraustið sem þarf. En fyrst einbeitum  við okkur algjörlega að Moldóvu og erum sannfærðir um að við séum með allt sem þarf til að fá þrjú stig," sagði Gerrard og kvaðst fagna því sérstaklega að fá Michael Carrick aftur í liðið en hann haf ekki kost á sér um skeið.

„Michael er leikmaður í háum gæðaflokki og ég hef áður spilað með honum í landsliðinu. Það er frábært að fá hann aftur, hann styrkir bæði liðið og hópinn í heild," sagði Steven Gerrard.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert