Mancini: Munum vinna Meistaradeildina

Roberto Mancini léttur í lund á fréttamannafundinum í gær.
Roberto Mancini léttur í lund á fréttamannafundinum í gær. AFP

Roberto Mancini, knattspyrnustjóri Manchester City, sagði á fréttamannafundi í Madríd í gær að sú stund myndi renna upp að félag hans fagnaði sigri í Meistaradeild Evrópu.

City þreytti frumraun sína þar í fyrra og komst þá ekki áfram úr riðlakeppninni. Nú eru ensku meistararnir í enn sterkari riðli með Real Madrid, Dortmund og Ajax og hefja slaginn á Santiago Bernabéu gegn spænsku meisturunum í kvöld.

„Við höfum unnið að þessu takmarki undanfarin ár. Við höfum unnið góð lið en þetta lið hefur spilað saman í tvö ár og þarf tíma. Ég er viss um að við eigum eftir að vinna þessa keppni. Ég veit ekki hvenær en er sannfærður um að sá tími mun koma því við höfum sett okkur það markmið,“ sagði Mancini á fundinum.

„Riðillinn er sterkari í ár en þetta verður erfiðara fyrir öll liðin. Nú er geysilega mikilvægt fyrir okkur að komast áfram úr riðlinum, og frá og með febrúar getur allt gerst í keppninni,“ sagði Mancini, sem gæti teflt Sergio Agüero fram í kvöld eftir mánaðar fjarveru hans vegna meiðsla.

„Sergio er í lagi. Hann er ekki í 100 prósent standi því hann hefur ekki spilað, en tilfinningin er góð. Hann er búinn að æfa með liðinu í fimm daga og á möguleika,“ sagði Ítalinn.

Leikur Real Madrid og Manchester City hefst kl. 18.45 eins og aðrir leikir í keppninni í kvöld en þá eru átta leikir á dagskrá í fjórum riðlum:

A-riðill:
Dinamo Zagreb - Porto
París SG - Dynamo Kiev

B-riðill:
Montpellier - Arsenal
Olympiacos - Schalke

C-riðill:
AC Milan - Anderlecht
Málaga - Zenit St. Pétursborg

D-riðill:
Dortmund - Ajax
Real Madrid - Manchester City

Kolbeinn Sigþórsson er fjarri góðu gamni hjá Ajax vegna meiðsla í öxl og hann missir af öllum sex leikjum Ajax í riðlakeppninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert