Sex punktar um leiki ensku liðanna

Ronaldo skoraði mörk og fékk rauð spjöld þegar hann spilaði …
Ronaldo skoraði mörk og fékk rauð spjöld þegar hann spilaði fyrir United gegn City. Reuters

Meistaradeildin fer af stað í kvöld og eru tvö ensk lið í eldlínunni. Arsenal heimsækir Frakklandsmeistara Montpellier og Englandsmeistarar Manchester City er í heimsókn hjá Spánarmeisturum Real Madrid.

Tölfræðisíðan Infostradalive hefur tekið saman áhugaverðar staðreyndir um leikina í kvöld þar sem meðal annars kemur fram að Arsenal hefur aldrei tapað útileik í Frakklandi.

Hér að neðan má sjá sex punkta um leiki ensku liðanna í kvöld en fleiri staðreyndir um alla leiki kvöldsins má lesa hér.

Montpellier - Arsenal

-Arsenal hefur aldrei tapað Evrópuleik í Frakklandi. Liðið hefur unnið fimm leiki og gert fjögur jafntefli. Aftur á móti hefur Arsenal tapað tveimur úrslitaleikjum í Evrópukeppnum í Frakklandi. Árið 2006 tapaði Arsenal fyrir Barcelona, 2:1, í úrslitum Meistaradeildarinnar í París og 1995 tapaði liðið fyrir Real Zaragoza í Evrópukeppni bikarhafa, einnig í París.

-Alls hefur Arsenal spilað 18 sinnum við frönsk félög í Evróukeppnum og aðeins tapað tvívegis. Í bæði skiptin var það í Meistaradeildinni og þá á heimavelli. Arsenal tapaði gegn Auxerre, 2:1, í riðlakeppninni 2002 og 1:0 gegn Lens 1998.

-Þetta er 15. árið í röð sem Arsenal tekur þátt í Meistaradeildinni. Aðeins Real Madrid (16) og Man. United (17) hafa spilað lengur samfellt í Meistaradeildinni.

Real Madrid - Manchester City

-Real Madrid hefur alltaf komist upp úr riðli í Meistaradeildinni eða 16 sinnum. Engu öðru lið hefur tekist það en næst kemur Chelsea sem hefur 10 sinnum komist upp úr riðli.

-Cristiano Ronaldo skoraði þrjú mörk í síðustu fimm leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni geng Manchester City þegar hann var leikmaður Man. United. Hann fékk fjögur rauð spjöld á sínum tíma í Manchester, tvö þeirra í leik gegn City.

-Sergio Agüero spilaði 10 sinnum fyrir Atlético Madrid gegn Real Madrid. Hann var aldrei í sigurliði (0-3-7) og skoraði ekki nema þrjú mörk í þessum tíu leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert