Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, byrjar í kvöld að taka út þriggja leikja bann í Meistaradeild Evrópu þegar lið hans sækir frönsku meistarana Montpellier heim en bannið fékk hann eftir að enska liðið var slegið út af AC Milan í 16-liða úrslitum keppninnar síðasta vetur.
Hann sendi þá dómaranum tóninn í leikslok og fékk þar með sitt þriðja bann á einu ári.
„Þetta er martröð. Þeir elska að refsa mér en samt vita þeir hjá UEFA ekki hvað má og hvað ekki. Og þegar ég spyr þá um hvað málið snýst geta þeir ekki svarað mér. Gleymum því ekki að í fyrra var mér refsað fyrir að gera það sem þeir sögðu mér að ég mætti gera,“ sagði Wenger við fréttamenn í Frakklandi í gær og átti þar við atvik í leik gegn Udinese síðasta haust þegar hann var í banni og hafði samband við aðstoðarstjórann Pat Rice í síma.
„Þegar ég spurðist fyrir um hvers vegna þeir vildu refsa mér svöruðu þeir að ég hefði verið í sambandi við varamannabekkinn. Ég svaraði að þeir hefðu sagt mér að ég mætti það og þá sögðust þeir hafa gert mistök og myndu refsa mér,“ sagði Wenger og vill frekar fá háa sekt en að vera bannað að sitja á varamannabekknum.
„Margir hjá UEFA, meira að segja Michel Platini, hafa sagt að við eigum að leyfa fólki að vinna vinnuna sína þó því sé refsað. Þetta hindrar menn í vinnunni. Þeir sekta mann og setja mann líka í bann. En ég geri ekki meira úr því, ég mun ræða við mitt lið á hótelinu fyrir leikinn,“ sagði Arsene Wenger.