Noregur sigraði Ísland, 2:1, í síðustu umferðinni í undankeppni Evrópumóts kvenna í knattspyrnu á Ullevaal-leikvanginum í Ósló í kvöld. Þar með vinna Norðmenn riðilinn með 24 stig og fara beint á EM en Ísland endar í öðru sæti með 22 stig og þarf að fara í umspil.
Íslandi nægði jafntefli og var sterkari aðilinn lengi vel. Tvö mörk Norðmanna á tveimur mínútum undir lok fyrri hálfleiks sneru þó leiknum heldur betur við en Maren Mjelde skoraði á 39. mínútu og Elise Thorsnes á 42. mínútu og staðan var 2:0 í hálfleik.
Ísland sótti linnulítið í seinni hálfleik og uppskar mark sem Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði á 66. mínútu, 2:1. Nær komst þó liðið ekki, norska vörnin var sterk og hélt út til leiksloka, og síðan fékk norska liðið dauðafæri seint í leiknum og hefði þá getað bætt við þriðja markinu.
Nú fer Ísland í umspil í októbermánuði, heima og heiman, en mögulegir mótherjar þar eru Rússland, Spánn, Skotland, Úkraína og Austurríki.
Lið Íslands: (4-3-3) Mark: Þóra B. Helgadóttir. Vörn: Rakel Hönnudóttir, Katrín Jónsdóttir, Sif Atladóttir, Hallbera G. Gísladóttir. Miðja: Edda Garðarsdóttir, Sara Björk Gunnarsdóttir, Katrín Ómarsdóttir. Sókn: Fanndís Friðriksdóttir, Margrét Lára Viðarsdóttir, Hólmfríður Magnúsdóttir.
Varamenn: Guðbjörg Gunnarsdóttir, Sandra María Jessen, Dagný Brynjarsdóttir, Harpa Þorsteinsdóttir, Dóra María Lárusdóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Glódís Perla Viggósdóttir.
Lið Noregs: Ingrid Hjelmseth - Marita Lund, Marit Christensen, Mari Knudsen, Toril Akerhaugen, Maren Mjelde, Solveig Gulbrandsen, Isabell Herlovsen, Ingvild Isaksen, Elise Thorsnes, Guro Knutsen.
Varamenn: Caroline Knutsen, Cecilie Pedersen, Leni Kaurin, Gry TofteIms, Nora Berge, Kristine Hegland, Hege Hansen.