Manchester United vann í dag sigur á Liverpool, 2:1, á Anfield í fyrsta sinn frá árinu 2007. Þar með er United stigi á eftir toppliði Chelsea en Liverpool er áfram í fallsæti.
Óhætt er að segja að dómarinn Mark Halsey hafi verið í sviðsljósinu í leiknum en Liverpool missti Jonjo Shelvey af velli með rautt spjald fimm mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks. Shelvey tæklaði Jonny Evans með háskalegum hætti en dómurinn var vægast sagt umdeilanlegur.
Liverpool komst engu að síður yfir með marki Steven Gerrard strax í byrjun síðari hálfleiks en Rafael jafnaði með glæsimarki. Robin van Persie skoraði svo sigurmarkið úr vítaspyrnu sem sennilega hefði aldrei átt að dæma því Antonio Valencia, sem krækti í vítið, virtist láta sig falla.
Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.
90. Leik lokið.
90. Það verða fimm mínútur af uppbótartíma.
89. Danny Welbeck var að koma inn á í stað Rafael.
84. Robin van Persie skellti sér í háskalega tæklingu á miðjum vallarhelmingi United og fékk að líta gula spjaldið. Einhverjir Liverpool-menn vildu nú sjá annan lit á spjaldinu.
83. Martin Kelly var nálægt því að jafna metin þegar hann átti skalla rétt framhjá markinu eftir fyrirgjöf frá vinstri.
82. Chicharito var að koma inná í stað Kagawa.
81. MARK! Pepe Reina valdi rétt horn og náði að snerta boltann en Robin van Persie skoraði úr vítaspyrnunni. Staðan 2:1 United í vil.
78. Daniel Agger meiddist þegar hann skall saman við eigin leikmann í tæklingu, þeirri sem að Valencia náði boltanum úr í sókninni sem endaði með vítinu. Robin van Persie þarf að bíða þar til Agger er farinn af velli áður en hann tekur vítið. Jamie Carragher kemur inn á í stað Agger.
76. VÍTI! Antonio Valencia vann boltann á miðjunni og brunaði inn í vítateiginn þar sem hann krækti í vítaspyrnu. Glen Johnson sótti að Valencia en hann virtist einfaldlega láta sig falla sjálfur.
66. Jordan Henderson var að koma inn á í stað Raheem Sterling.
65. Varamaðurinn Suso hefur komið sterkur inn í seinni hálfleikinn og átti nú mjög gott skot rétt utan teigs sem Lindegaard rétt náði að verja í horn.
58. Paul Scholes er ekki búinn að vera lengi inni á en var að fá gult spjald fyrir að tækla Raheem Sterling niður. Hárréttur dómur.
57. Luis Suárez vildi fá vítaspyrnu þegar hann féll við í teignum í baráttu við Jonny Evans. Báðir virtust hins vegar snerta boltann og því réttast að dæma ekki víti.
51. MARK! United-menn voru ekki lengi að jafna í 1:1 og það með glæsimarki. Kagawa tók boltann niður með brjóstkassanum fyrir Rafael hægra megin í teignum og brasilíski bakvörðurinn skrúfaði boltann með vinstri fæti upp í fjærhornið, í stöng og inn.
46. MARK! Liverpool-menn eru komnir í 1:0 manni færri! Suso átti fyrirgjöf frá vinstri en gestirnir komu boltanum rétt út fyrir teig. Þar var Glen Johnson sem kom með boltann inn í teiginn og kom honum til hægri á Steven Gerrard sem tók knöttinn niður og skoraði með hnitmiðuðu skoti neðst í hægra markhornið. Það voru aðeins um 50 sekúndur liðnar af seinni hálfleiknum!
46. Seinni hálfleikur hafinn. Paul Scholes kom inná fyrir Nani og hinn 18 ára gamli Spánverji Suso kom inná fyrir Fabio Borini.
45. Hægt er að sjá tæklingu Shelvey með því að smella HÉR. Dæmi nú hver fyrir sig.
45.+3. Hálfleikur. Liverpool átti mun meira í fyrri hálfleiknum en tókst ekki að nýta færin sín til að skora og staðan því markalaus. Jonjo Shelvey fékk að líta rauða spjaldið seint í hálfleiknum fyrir tæklingu og því verður á brattann að sækja fyrir heimamenn í seinni hálfleiknum.
45.+2. Jafnvel manni færri eru Liverpool-menn enn að sækja mun meira.
45. Sjónvarpsupptökur sýndu að Shelvey lét Sir Alex Ferguson heyra það þegar hann gekk af velli. Hann telur kannski að áhrifamáttur Skotans hafi eitthvað haft með það að gera að rauða spjaldið fór á loft, en það verður að teljast ósennilegt.
39. RAUTT! Jonjo Shelvey er farinn af velli með rautt spjald. Shelvey henti sér í tæklingu gegn Jonny Evans, og náði reyndar til boltans, en Mark Halsey ákvað að veifa rauða spjaldinu.
32. Raheem Sterling var að ná í aukaspyrnu alveg við hægra vítateigshornið en það var Patrice Evra sem braut á honum. Ekkert varð úr spyrnunni.
27. Luis Suárez kom með boltann að vítateigsboganum og reyndi að skrúfa hann upp í hægra markhornið en rétt framhjá.
26. United hefur sáralítið sótt þessar fyrstu 25 mínútur en nú átti Nani skot úr aukaspyrnu af nokkuð löngu færi sem fór vel yfir markið.
22. Rio Ferdinand virðist hafa meiðst í læri og haltrar aðeins um völlinn. Hann virðist þó ætla að harka af sér.
21. Daniel Agger vildi fá vítaspyrnu þegar hann reyndi að ná til fyrirgjafar frá Gerrard en féll við í teignum. Jonny Evans var vissulega með hendur á bakinu á Dananum en sennilega var réttast að dæma ekkert, eins og Mark Halsey gerði.
14. Liverpool byrjar þennan leik mun betur og nú fékk Fabio Borini stungusendingu inn fyrir vörn United en missti boltann of langt til hægri svo ekkert færi varð úr þessu.
10. Steven Gerrard með hörkuskot í hliðarnetið eftir hornspyrnu frá hægri.
7. Stórhætta við mark United. Luis Suárez var með boltann hægra megin í teignum og þrumaði fyrir markið þar sem Lindegaard varð fyrir boltanum sem skoppaði út í teiginn áður en Rafael hreinsaði í burtu.
7. Liverpool fékk fyrstu hornspyrnu leiksins en ekkert varð úr henni. Ryan Giggs átti hins vegar fyrstu marktilraunina en gott skot hans rétt utan teigs fór framhjá hægri markvinklinum.
1. Leikurinn er hafinn.
0. Áhorfendur á Anfield tóku jafnvel enn betur undir í laginu You'll Never Walk Alone fyrir leik en vanalega. Nú getur leikurinn hafist.
0. Ryan Giggs og Steven Gerrard, fyrirliðar liðanna í dag, hleyptu 96 blöðrum upp í loftið fyrir leik til minningar um þá sem létust í Hillsborough-slysinu hræðilega.
0. Margir óttuðust að þeir Luis Suárez og Patrice Evra myndu ekki takast í hendur fyrir leik eins og hefð er fyrir, í ljósi þeirra forsögu, en þær áhyggjur reyndust óþarfar þó ekki hafi þeir beinlínis faðmast.
0. United hefur ekki unnið sigur á Anfield í síðustu fimm leikjum þar. Þegar liðin mættust á Anfield í deildinni á síðasta tímabili varð niðurstaðan 1:1 jafntefli.
0. United er með 9 stig eftir 4 leiki og getur með sigri komist upp í 2. sæti deildarinnar, stigi á eftir Chelsea. Liverpool, sem er í fallsæti með aðeins 2 stig, getur komist upp í miðja deild með sigri.
Liverpool: Reina, Kelly, Agger, Skrtel, Johnson, Allen, Gerrard, Shelvey, Borini, Sterling, Suárez.
Varamenn: Jones, Enrique, Sahin, Assaidi, Henderson, Carragher, Suso.
Manchester United: Lindegaard, Rafael, Ferdinand, Evans, Evra, Carrick, Giggs, Valencia, Kagawa, Nani, Van Persie.
Varamenn: De Gea, Anderson, Hernandez, Welbeck, Scholes, Cleverley, Büttner.