Liverpool tókst ekki að fylgja eftir 5:2-sigrinum á Norwich um síðustu helgi þegar liðið gerði markalaust jafntefli við Stoke á Anfield í dag. Tottenham vann á sama tíma 2:0 sigur á Aston Villa.
Steven Caulker verður sennilega skráður fyrir fyrra marki Tottenham en boltinn fór af honum í netið eftir skot Jermains Defoe. Aaron Lennon bætti svo við öðru marki. Gylfi Þór Sigurðsson kom inná sem varamaður hjá Tottenham á 82. mínútu fyrir Clint Dempsey.
Tottenham er nú komið upp í 5. sæti deildarinnar með 14 stig, fimm stigum frá toppliði Chelsea, en Villa er með 5 stig í 16. sæti.
Liverpool hefur enn ekki unnið heimaleik á tímabilinu og er aðeins með 6 stig í 14. sæti. Stoke er í 12. sæti með 7 stig.
Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is:
90. Leikjum lokið.
90. Á White Hart Lane var Gylfi Þór nálægt því að skora sjálfur eftir sendingu frá Adebayor og Gylfi átti svo stórgóða sendingu á Gareth Bale en skot hans úr dauðafæri var varið í stöng.
90. Úff. Liverpool-menn hársbreidd frá því að skora gegn Stoke. Martin Skrtel náði skoti af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá hægri en boltinn fór af fjærstönginni og framhjá.
82. Gylfi Þór Sigurðsson var að koma inná fyrir Clint Dempsey hjá Tottenham sem er 2:0 yfir gegn Aston Villa.
82. Luis Suárez reyndi skot að marki Stoke úr afskaplega þröngu færi, nánast við endalínuna hægra megin, en það fór í stöng og framhjá.
79. Hvorki Liverpool né Stoke hefur enn tekist að koma boltanum í netið. Oussama Assaidi var að koma inná fyrir Nuri Sahin hjá heimamönnum.
71. Raheem Sterling var nærri því að ná forystunni fyrir Liverpool þegar hann átti skot í stöng og framhjá, hægra megin úr teignum, eftir sendingu frá Daniel Agger.
69. Emmanuel Adebayor var að koma inná fyrir Jermain Defoe hjá Tottenham. Gylfi Þór er enn á bekknum.
67. MARK! Tottenham komið í 2:0 gegn Aston Villa með marki Aaron Lennon. Lennon fékk boltann frá Clint Dempsey og þrumaði í fjærhornið af vítateigslínunni.
67. Liverpool var að gera sína fyrstu skiptingu. Joe Cole kom inná fyrir Suso.
58. MARK! Tottenham er komið yfir gegn Villa, 1:0. Jermain Defoe kom boltanum í netið eftir fyrirgjöf frá Gareth Bale. Markið verður þó líklega skráð á Steven Caulker því boltinn fór af honum í netið.
53. Aston Villa var afar nálægt því að ná forystunni gegn Tottenham þegar Christian Benteke átti skalla af stuttu færi en boltinn strauk stöngina.
46. Seinni hálfleikur hafinn. Engar breytingar á liðunum.
45. HÁLFLEIKUR. Enn hefur ekkert verið skorað í leikjunum tveimur.
33. Robert Huth klippti Luis Suárez niður á miðjum vallarhelmingi Stoke, þegar Suárez var á leið að marki, og fékk réttilega gult spjald fyrir. Hann getur prísað sig sælan að hafa ekki verið búinn að fá gult spjald fyrr í leiknum.
29. Liverpool-maðurinn Suso sýndi lipra takta við vítateig Stoke og sendi boltann inn að marki þar sem Daniel Agger rétt missti af honum. Boltinn fór svo af stönginni og framhjá.
20. Pepe Reina átti slaka sendingu beint út úr vítateig Liverpool sem gestirnir komust inn í og Dean Whitehead reyndi að vippa boltanum yfir spænska markvörðinn sem náði þó með naumindum að verja.
1. Leikirnir eru hafnir.
Liverpool: Reina, Wisdom, Skrtel, Agger, Johnson, Allen, Gerrard, Sahin, Suso, Sterling, Suarez.
Stoke: Begovic; Cameron, Shawcross, Huth, Wilson; Walters, Whelan, N'Zonzi, Adam, Kightly; Crouch.
Tottenham: Lloris, Walker, Gallas, Caulker, Vertonghen, Dembele, Sandro, Lennon, Bale, Dempsey, Defoe.
Aston Villa: Guzan, Lowton, Vlaar, Clark, Bennett, El Ahmadi, Delph, Albrighton, Holman, Agbonlahor, Benteke.