Man. United í annað sætið með sigri

Manchester United lyfti sér upp í annað sæti ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta með sigri, 3:0, gegn Newcastle á útivelli í lokaleik helgarinnar í enska boltanum.

Man. United byrjaði mjög vel og skoruðu Jonny Evans og Patrice Evra báðir með skalla eftir hornspyrnu á 8. og 12. mínútu.

Þrátt fyrir góða spilamennsku Newcastle var það Man. United sem bætti við marki í seinni hálfleik en það gerði Tom Cleverley á 71. mínútu.  

Man. United er með fimmtán stig í öðru sæti, fjórum stigum á eftir Chelsea. Newcastle er  í tíunda sæti með níu stig.

90.+5 LEIK LOKIÐ, 0:3.

83. Newcastle heldur áfram að vera meira með boltann. Man. United tekur lífinu með ró enda þrjú stig í húsi.

71. MARK! - 0:3. Þrátt fyrir pressu Newcastle er það Man. United sem bætir við marki. Tom Cleverley skorar með stórkostlegu skoti fyrir utan vítateigshornið vinstra megin. Þetta virtist eiga vera fyrirgjöf fyrst en líklega var Cleverley að reyna þetta.

69. Newcastle ræður lögum og lofum í leiknum. Man. United hefur fært sig aftar á völlinn og freistast til að beita skyndisóknum. 

63. Tvöföld skipting hjá Newcastle. Shola Ameobi og Anita koma inná fyrir Papiss Cissé og Shane Ferguson.

50. Þvílíkt dauðafæri! David De Gea fer í misheppnað úthlaup og Demba Ba skallar boltann í slána. Þaðan berst boltinn á Cissé sem reynir skalla af tveggja metra færi en De Gea nær að koma sér í markið og ver boltann stórkostlega í stöngina og út. Boltinn var kominn svona 95 prósent yfir línuna. Kannski hefði Newcastle átt að fá dæmt mark þarna. United heppið.

46. Seinni hálfleikurinn er hafinn.

45.+3 HÁLFLEIKUR Man. United byrjaði mjög vel en Newcastle tók síðan völdin og setti mikla pressu á gestina.

38. Mikil pressa frá Newcastle núna. United gengur illa að halda boltanum innan liðsins.

31. Robin van Persie og Rio Ferdinand næla sér í gul spjöld með stuttu millibili. Þau eru því orðin þrjú gulu spjöldin sem Man. United hefur fengið á fyrsta hálftíma leiksins.

30. Jonny Evans er kominn aftur inná. Newcastle er mun betra þessar mínúturnar.

26. Markaskorarinn og miðvörðurinn Jonny Evans virðist hafa snúið sig illa í tæklingu. Hann fer af velli til að fá aðhlynningu.

25. Newcastle er að komast inní leikinn. Hatem Ben Arfa fer vel með boltann og er búinn að fiska gult spjald á Shinji Kagawa. Demba á svo fast skot að marki eftir hornspyrnu en það fer framhjá.

16. MARK! - 0:2. Aftur skorar Man. United og aftur eftir hornspyrnu. Nú spyrnir Wayne Rooney frá vinstri og það er Patrice Evra af öllum mönnum sem skallar boltann í netið af stuttu færi. Skemmtilegt fyrir Evra í sínum 300. leik fyrir Man. United.

12. Man. United hefði átt að bæta við marki. Markvörðurinn Steve Harper reynir að leika á Danny Welbeck en Welbeck hirðir af honum boltann. Hann reynir skot á autt markið sem fer langt framhjá. Robin van Persie stóð einn fyrir framan markið. 

8. MARK! - 0:1. Manchester United hefur byrjað mjög vel og tekur forustuna í leiknum. Robin van Persie vinnur hornspyrnu og tekur hana sjálfur. Jonny Evans stekkur hæst í teignum og skallar boltann af afli í netið, óverjandi fyrir Steve Harper.

1. Leikurinn er hafinn.

Newcastle: Harper; Santon, Williamson, Perch, Ferguson; Ben Arfa, Cabaye, Tiote, Gutierrez; Ba, Cisse.
Man. United: De Gea, Rafael, Ferdinand, Evans, Evra, Carrick, Cleverley, Kagawa, Welbeck, Rooney, Van Persie

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert