Liverpool áfram á Anfield

Hann er jafnan þétt setinn bekkurinn á Anfield.
Hann er jafnan þétt setinn bekkurinn á Anfield. Reuters

Liverpool hefur staðfest að liðið ætli sér að spila áfram á Anfield um ókomin ár í stað þess að nýr leikvangur verði byggður eins og hugmyndir höfðu verið uppi um.

Borgarstjórn Liverpool hefur ákveðið að veita félaginu 25 milljóna punda styrk til að gera upp svæðið á Anfield og stendur til að stækka stúkuna sem í dag tekur rúmlega 45.000 manns í sæti. Til þess þarf aukið landsvæði sem ná þarf samningum um.

„Dagurinn í dag markar tímamót fyrir Anfield-svæðið. Allir í félaginu eru meðvitaðir um mikilvægi þessa dags,“ sagði Ian Ayre framkvæmdastjóri Liverpool.

„Við tökum fagnandi þessu samstarfi og viljum þakka Joe Anderson [borgarstjóra Liverpool] og borgarstjórn fyrir þann tíma og stuðning sem okkur hefur verið veittur til að taka rétta ákvörðun. LFC fagnaði 120 ára afmæli á Anfield á þessu ári og enginn vafi leikur á að hér á liðið heima. Okkar von var alltaf að við yrðum áfram á Anfield,“ sagði Ayre sem segir að umræða um kostnað og stærð stúkunnar muni fara fram síðar þegar búið verði að ná samningum um stækkunina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert