Samtökin standa með Ferdinand

Rio Ferdinand hitaði ekki upp í bol eins og félagi …
Rio Ferdinand hitaði ekki upp í bol eins og félagi hans Anderson og allir aðrir gerðu. AFP

Samtök enskra atvinnuknattspyrnumanna ætla að standa við bakið á Rio Ferdinand og koma honum til varnar í yfirvofandi deilu hans við knattspyrnustjórann Alex Ferguson.

Ferguson lýsti yfir miklum vonbrigðum með Ferdinand þegar hann tók ekki þátt í átakinu gegn kynþáttafordómum í enska  fótboltanum í gær. Leikmenn allra liða hituðu þá upp í bolum merktum átakinu - nema hvað Ferdinand tók ekki þátt í því og heldur ekki Jason Roberts, leikmaður Reading, sem hafði lýst því yfir fyrirfram.

Ferguson sagði á blaðamannafundi fyrir leikinn að Ferdinand myndi að sjálfsögðu taka þátt í átakinu eins og aðrir, en eftir leikinn sagði hann að miðvörðurinn reyndi hefði gert lítið úr sér og sínum orðum, brugðist félögum sínum, og að hann ætti eftir að taka hart á þessu máli innan félagsins.

Clarke Carlisle, formaður leikmannasamtakanna, sagði við BBC í dag að séð yrði til þess að réttindi Ferdinands yrðu virt. „Við munum sjá til þess að ekki verði brotið á mannréttindum Rios Ferdinands í þessu máli. Allir eiga rétt á sínum skoðunum og málfrelsi. Það er ekki hægt að skipa neinum að taka í hönd annars, og það er ekki hægt að skipa neinum að klæðast bol. Sjálfur hefði ég þó talið að besta leiðin til framfara hefði verið að taka þátt í átakinu,“ sagði Carlisle, sem sjálfur spilar nú með D-deildarliðinu York City eftir að hafa leikið með Burnley undanfarin fimm ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert