Arsenal og Man. City töpuðu bæði

Ensku liðin Arsenal og Manchester City töpuðu bæði sínum leikjum í Meistaradeild Evrópu í fótbolta í kvöld en Þýskalandsmeistarar Dortmund unnu frábæran heimasigur á Real Madrid.

Arsenal spilaði skelfilega gegn þýska liðinu Schalke og náði ekki að skapa sér nein alvöru færi. Þýska liðið refsaði Arsenal fyrir slaka spilamennsku og tryggði sér sigurinn með mörkum frá Hollendingunum Klaas-Jan Huntelaar og Ibrahim Affelay á síðustu fimmtán mínútum leiksins.

Schalke er efst í riðlinum með sjö stig og fær næst Arsenal í heimsókn en Arsenal er í öðru sæti riðilsins með sex stig. Olympiakos sem vann dramatískan sigur á Montpellier í Frakklandi í kvöld er í þriðja sætinu með þrjú stig.

Englandsmeistarar Manchester City þurftu að sætta sig við tap gegn Ajax í dauðariðlinum, D-riðli, þrátt fyrir að komast yfir. Samir Nasri skoraði fyrst fyrir City á 22. mínútu en Siem De Jong jafnaði metin á lokamínutu í fyrri hálfleik. Christian Eriksen, danski landsliðsmaðurinn, lagði svo upp eitt og skoraði annað í seinni hálfleik og tryggði hollenska liðinu sigurinn.

Í sama riðli vann Dortmund sigur á Real Madrid, 2:1, þar sem Robert Lewandowski kom heimamönnum yfir á 36. mínútu en Cristiano Ronaldo jafnaði metin í næstu sókn. Í seinni hálfleik var það varnarmaðurinn Marcel Schmelzer sem tryggði Dortmund sigurinn og efsta sætið í dauðariðlinum eftir þrjár umferðir.

Öll úrslit kvöldsins og markaskorara má sjá hér að neðan.

A-RIÐILL
Dinamo Zagreb - PSG 0:2 LEIK LOKIÐ
(Zlatan Ibrahimovic 32., Jérémy Menez 43.)
Porto - Dynamo Kiev 3:2 LEIK LOKIÐ
(Silvestre Varela 15., Jackson Martinez 36., 78. – Oleg Gusev 21., Brown Ideye 72.) 

B-RIÐILL
Arsenal - Schalke 0:2 LEIK LOKIÐ
(Klaas-Jan Huntelaar 76., Ibrahim Affelay 86.)
Montpellier - Olympiakos 1:2 LEIK LOKIÐ
(Gaetan Charbonnier 49. – Vassilis Torossidis 73., Konstantinos Mitroglou 90.) 

C-RIÐILL
Zenit St. Pétursborg - Anderlecht 1:0 LEIK LOKIÐ
(Aleksandr Kerzhakov 72. víti)
Málaga - AC Milan 1:0 LEIK LOKIÐ
(Joaquín 64.) 

D-RIÐILL
Ajax - Man. City 3:1 LEIK LOKIÐ
(Siem De Jong 45., Niklas Moisander 57., Christian Eriksen 68. – Samir Nasri 22.)
Dortmund - Real Madrid 2:1 LEIK LOKIÐ
(Robert Lewandowski 36., Marcel Schmelzer 64. – Cristiano Ronaldo 38.) 

---

20.40 ÖLLUM LEIKJUM KVÖLDSINS ER LOKIÐ

20.40 LEIK LOKIÐ HJÁ DORTMUND OG REAL MADRID, 2:1.

20.38 LEIK LOKIÐ HJÁ AJAX OG MAN. CITY, 3:1.

20.34 LEIK LOKIÐ HJÁ ARSENAL OG SCHALKE, 0:2.

20.26 MARK! Schalke er að klára þetta í London. Ibrahim Affelay skorar af stuttu færi á 86. mínútu eftir laglega fyrirgjöf frá hægr. Snotur sókn hjá gestunum. Þetta er ekkert minna en Þjóðverjarnir eiga skilið.

20.20. MARK! Loksins mark á Emirates en það er Schalke sem skorar. Hollenska markavélin Klaas-Jan Huntelaar fær sendingu inn á teiginn þar sem miðverðir Arsenal gleyma sér og þá er ekki að spyrja að því. Huntelaar þrumar boltanum í netið á 76. mínútu. Arsenal hefur ekki tapað leik í riðlakeppni Meistaradeildarinnar á heimavelli í tíu ár. Er það að breytast?

20.14 MARK! Í Dortmund eru heimamenn komnir yfir, 2:1, gegn Real Madrid. Marcel Schmelzer skorar á 64. mínútu.

20.12 Það er spurning hvort áhorfendur á Emirates-vellinum fái ekki bara endurgreitt. Leikurinn er alveg skelfilegur. Gervinho nælir sér í gult spjald fyrir ljóta dýfu í teignum. Var kominn framhjá varnarmanninum en hendir sér niður.

20.10 MARK! Ajax bætir við marki og er komið í 3:1 gegn Man. City. Nú skorar Christian Eriksen á 68. mínútu eftir mistök í vörn Englandsmeistaranna. Hollendingarnir mega ekki fagna of snemma. City-menn eru snillingar í að koma til baka á lokamínútunum.

20.00 MARK! Ajax er komið yfir gegn Englandsmeisturum Manchester City. Niklas Moisander skorar á 57. mínútu með skalla eftir hornspyrnu frá Christian Eriksen.

19.52 Benedikt Höwedes kemst í dauðafæri í teig Arsenal eftir glæsilegan undirbúning Jefferson Farfáns en hann skýtur yfir.

19.46 Seinni hálfleikur er að hefjast.

19.31 Fyrri hálfleik er lokið hjá ensku liðunum. Bæði eru með jafna stöðu.

19.30 MARK! Ajax jafnar, 1:1, gegn Manchester City á lokamínútu fyrri hálfleiks. Siem De Jong skorar á 45. mínútu eftir skemmtilegan samleik við Ricardo van Rhijn.

19.28 Huntelaar kemst í gott færi í teig Arsenal á markamínútunni, þeirri 43., en skýtur framhjá. 

19.25 MARK! Real ekki lengi að jafna metin. Cristiano Ronaldo fær stórkostlega sendingu inn fyrir vörn Dortmund frá Mesut Özil og lyftir boltanum yfir Weidenfeller á 38. mínútu. Aftur jafnt í Þýskalandi.

19.23 MARK! Þýskalandsmeistarar Dortmund eru komnir yfir gegn Spánarmeisturum Real Madrid. Sebastian Kehl kemst inní sendingu Pepe og stingur boltanum inn fyrir vörnina á Robert Lewandowski sem skorar af miklu öryggi framhjá Casillas á 36. mínútu.

19.21 Klaas-Jan Huntelaar kemur boltanum í netið fyrir Schalke en er réttilega dæmdur rangstæður.

19.15 Hálftími búinn og lítið er að gerast í London þar sem Arsenal er að spila við Schalke. Hvorugt liðið hefur fengið alvöru færi þrátt fyrir að skiptast á að sækja. 

19.07 MARK! Manchester City skorar á 22. mínútu í Hollandi og tekur forustuna. Það er Frakkinn Samir Nasri sem skorar eftir sendingu frá James Milner, 0:1.

18.59 Ibrahim Affelay fellur í teignum hjá Arsenal þegar hann reynir að komast framhjá Vito Mannone í markinu. Affelay fær ekki víti heldur gult spjald fyrir leikaraskap. Mannonen heppinn þarna því snerting virðist augljós.

18.55 Danski landsliðsmaðurinn Christian Eriksen á hörkuskot að marki City rétt fyrir utan teig en boltinn fer framhjá.

18.52 Leikur Arsenal og Schalke fer rólega af stað. Heimamenn eru meira með boltann og reyna finna glufur á vörn Þjóðverjanna.

18.45 LEIKIRNIR ERU AÐ HEFJAST

18.43 Liðin eru mætt út á völl og verið er að spila Meistaradeildarlagið góða. 

18.03 Mikil spenna er einnig fyrir stórleikinn í dauðariðlinum, D-riðli, þar sem Dortmund tekur á móti Real Madrid. Real er efst í D-riðli með sex stig en Dortmund er með fjögur stig.

18.00 Byrjunarlið ensku liðanna eru klár. Bosníumaðurinn Edin Dzeko byrjar í framlínu Manchester City í Hollandi. Oliver Giroud er á bekknum hjá Arsenal sem tekur á móti Schalke á Emirates-vellinum.

Man. City: Hart - Richards, Kompany, Lescott, Clichy, Milner, Barry, Nasri, Y. Toure, Aguero, Dzeko.

Arsenal: Mannone, Mertesacker, Vermaelen, Santos, Jenkinson, Arteta, Ramsey, Cazorla, Coquelin, Podolski, Gervinho.

Dortmund: Wiedenfeller; Subotic, Hummels, Piszczek, Schmelzer; Kehl, Bender, Götze; Reus, Grosskreutz, Lewandowski.

Real Madrid: Casillas; Varane, Pepe, Ramos, Khedira, Özil, Alonso, Essien, Ronaldo, Benzema, Di Maria.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert