Yfirlýsing frá Ferdinand-bræðrum

Síðasta árið hefur verið erfitt fyrir Rio Ferdinand og Anton …
Síðasta árið hefur verið erfitt fyrir Rio Ferdinand og Anton bróður hans. AFP

Bræðurnir Rio og Anton Ferdinand hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir útskýra hvers vegna þeir tóku ekki þátt í átaki Kick it out-samtakanna um helgina.

Ár er liðið síðan að Anton varð fyrir kynþáttaníði af hendi John Terry í leik QPR og Chelsea en Terry hefur nú tekið út einn leik af fjórum í leikbanninu sem hann fékk fyrir það. Þeir bræður eru ósáttir með hve vægar refsingar eru í málum er varða kynþáttaníð og vilja beita sér fyrir bættu ástandi.

Yfirlýsingin:

Ár er nú liðið frá atvikinu á Loftus Road. Á þeim tíma hafa komið í ljós djúpar gjár sem enn eru til staðar í fótboltanum. Við erum vissir um það að á næstu mánuðum mun umræðan halda áfram um það hvernig best sé að hlutirnir þróist. Við ætlum að taka þátt í þessari umræðu rétt eins og fleiri núverandi og fyrrverandi leikmenn af öllum kynþáttum munu gera.

Varðandi Kick It Out þá viljum við ítreka hve frábært starf samtökin hafa unnið til að upplýsa og fræða fólk. En tímarnir breytast og það þurfa svona samtök líka að gera. Við erum reiðubúnir að ræða málin til þess að auka vægi Kick It Out enn frekar í baráttunni gegn kynþáttahatri í fótbolta.

Þó að við séum vonsviknir með aðgerðir PFA [samtök atvinnuknattspyrnumanna á Englandi] og FA [enska knattspyrnusambandið] síðasta árið erum við staðráðnir í að vinna með þeim samtökum sem fyrir eru með það að markmiði að bæta leikinn og ná árangri sem fyrst.

Við viljum þakka öllum stuðningsmönnum og starfsfólki QPR og Manchester United fyrir þeirra stuðning á erfiðu ári. Sérstaklega viljum við þakka Sir Alex Ferguson og Mark Hughes.

Við munum ekki ræða opinberlega neitt tengt þessu máli. Við ætlum að einbeita okkur að því að spila fótbolta

Rio og Anton Ferdinand

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert