Fjögurra marka jafntefli í nágrannaslagnum

Suárez var drjúgur í dag.
Suárez var drjúgur í dag. AFP

Everton og Liverpool skildu jöfn, 2:2, í slagnum um Bítlaborgina í ensku úrvalsdeildinni. Öll fjögur mörkin komu í fyrri hálfleik en leikurinn var bráðfjörugur og skoraði Liverpool löglegt sigurmark í uppbótartíma sem dæmt var af.

Everton spilaði betur í fyrri hálfleik en Liverpool náði samt sem áður tveggja marka forustu, 0:2. Luis Suárez byrjaði á því að þruma boltanum í Leighton Baines og þaðan í netið og skömmu síðar skoraði hann gott skallamark eftir sendingu frá Steven Gerrard.

Heimamenn jöfnuðu aftur á móti áður en fyrri hálfleik lauk. Fyrst skoraði Leon Osman með góðu skoti frá vítateigslínunni eftir mistök Brads Jones í markinu og svo skoraði Steven Naismith af stuttu færi eftir sendingu frá Marouane Fellaini.

Í uppbótartíma skoraði Luis Suárez sigurmark þegar Sebastian Coates skallaði boltann fyrir fætur hans í markteignum en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Þegar atvikið var endursýnt kom í ljós að Suárez var langt frá því að vera rangstæður.

Niðurstaðan jafntefli, 2:2, sem flytur Everton upp í fjórða sætið með 16 stig en Liverpool fer upp í það ellefta með tíu stig.

90.+5. LEIK LOKIÐ

90.+4 Luis Suárez skorar af stuttu færi en markið er dæmt af vegna rangstöðu. Í endursýningu sést það greinilega að Úrúgvæinn var langt frá því að vera rangstæður.

88. Það stefnir allt í jafntefli á Goodison Park. Liverpool er líklegra þessa stundina samt sem áður.

78. Það er að færast meiri harka í leikinn á lokamínútunum. Enn nægur tími fyrir sigurmark.

67. Leighton Baines með frábæra spyrnu inn á teig þar sem Nikica Jelavic stingur sér fram fyrir Skrtel en Króatinn skallar framhjá úr dauðafæri.

59. Marouane Fellaini nær fínum skalla að marki Liverpool eftir fyrirgjöf frá Seamus Coleman en boltinn fer rétt framhjá.

50. Raheem Sterling kemst í dauðafæri og ætlar að lyfta boltanum yfir Howard í markinu en skotið er hræðilegt og boltinn fer langt framhjá.

46. Seinni hálfleikur er hafinn.

45.+3 HÁLFLEIKUR

45.+1 Phil Neville fær gult spjald fyrir dýfu. Verður seint sagt að fyrirliðinn hafi falið þessa dýfu vel. 

35. MARK! - 2:2. Heimamenn eru búnir að jafna! Fellaini gefur fyrir inn á markteig frá vinstri, Luis Enrique gleymir sér alveg í varnarleiknum og Steven Naismith skorar af stuttu færi. Þessi fyrri hálfleikur er búinn að vera frábær skemmtun.

32. Everton gerir hvað það getur til að jafna og setur nokkra pressu á Liverpool. Marouane Fellaini kemst í dauðafæri en missir boltann út af í kjörstöðu. Raheem Sterling fær gult spjald og skömmu síðar fær hann tiltal eftir óþarfa brot. Táningurinn tæpur.

22. MARK! - 1:2. Þvílík veisla! Brad Jones, markvörður Liverpool, kýlir fyrirgjöf beint á Leon Osman sem þakkar pent fyrir og þrumar boltanum í bláhornið. Þetta er nú meiri leikurinn.

20. MARK! - 0:2. Everton byrjaði betur í leiknum en það er Liverpool sem skorar mörkin. Luis Suárez skallar aukaspyrnu frá Steven Gerrard í netið á 20. mínútu. Hann var algjörlega óvaldaður í teignum.

14. MARK! - 0:1. Liverpool kemst yfir. José Enrique gefur fyrir markið frá vinstri og Luis Suárez fær boltann hinum megin í teignum. Hann þrumar að marki en boltinn fer í Leighton Baines og af honum í netið. Sjálfsmark. 

10. Heimamenn í Everton byrja betur. Belginn Kevin Mirallas hefur átt bestu tilþrifin til þessa en hann fór auðveldlega framhjá þremur Liverpool-mönnum áður en Martin Skrtel bjargaði í horn.

1. Leikurinn er hafinn.

Everton: Howard; Coleman, Jagielka, Distin, Baines; Naismith, Neville, Fellaini, Osman, Mirallas; Jelavic.
Varamenn: Mucha, Heitinga, Hibbert, Oviedo, Gueye, Vellios
Liverpool: Jones, Enrique, Wisdom, Skrtel, Agger, Gerrard, Allen, Sahin, Sterling, Suso, Suarez.
Varamenn: Reina, Carragher, Shelvey, Coates, Downing, Henderson, Assaidi 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert