Sterling gæti valið Jamaíku fram yfir England

Raheem Sterling er orðinn fastamaður hjá Liverpool.
Raheem Sterling er orðinn fastamaður hjá Liverpool. AFP

Svo gæti farið að Raheem Sterling, ungstirnið í röðum Liverpool, léki ekki með enska landsliðinu í knattspyrnu en fæðingarland hans, Jamaíka, sækist nú hart eftir starfskröftum framherjans unga.

Sterling, 17 ára, spilaði fyrir U21 árs lið England fyrr á árinu og var ónotaður varamaður hjá aðalliðinu í leik gegn Úkraínu í október.

Hann hefur þó ekki spilað eina mínútu fyrir A-landslið Englands og er því löglegur með landsliði Jamaíka kjósi hann að spila fyrir fæðingarland sitt. Hann yfirgaf Jamaíku fimm ára gamall.

Forseti knattspyrnusambands Jamaíku, Horace Burrell, flýgur til Englands í þessari viku tiil að ræða við táninginn um framtíðaráform hans.

„Samkvæmt reglum FIFA er Raheem enn löglegur með okkur. Við teljum það rökrétt að ræða málin að minnsta kosti,“ segir Burrell.

Sterling er sagður hafa áhuga á að spila fyrir Jamaíku en England hafði í huga að tryggja sér framtíð framherjans með því að gefa honum mínútur í vináttulandsleik Englands gegn Svíþjóð seinna í mánuðinum.

Sterling hefur farið mjög vel af stað með Liverpool á tímabilinu og hefur Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, keppst við að lofa táninginn sem skoraði sitt fyrsta mark á dögunum í leik gegn Reading.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert