Sex leikmenn sem hafa spilað með enskum liðum á þessu ári eru í hópi þeirra tíu sem tilnefndir hafa verið í kjörinu á knattspyrnumanni ársins í Afríku 2012.
Þar eru fremstir í flokki þeir Yaya Touré og Didier Drogba frá Fílabeinsströndinni en Touré var í stóru hlutverki hjá Manchester City sem varð enskur meistari og Drogba nánast tryggði Chelsea Evrópumeistaratitlinn.
Landi þeirra Gervinho, leikmaður Arsenal, er líka í tíu manna hópnum, sem og þeir Demba Ba, sóknarmaður Senegal og Newcastle, Mikel John Obi, nígeríski miðjumaðurinn hjá Chelsea, og Alex Song, miðjumaður Barcelona og Kamerún, sem var seldur frá Arsenal til katalónska liðsins í sumar.
Aðrir í hópnum eru André Ayew frá Marseille og Gana, Pierre-Emeerick Aubameyang frá St. Etienne og Gabon, Younes Belhanda frá Montpellier og Marokkó og Christopher Katongo frá Sambíu, sem leikur með Henan í Kína.