Wayne Rooney segir að Robin van Persie sé enn betri leikmaður en hann gerði sér grein fyrir og Hollendingurinn geti haft úrslitaáhrif á gengi Manchester United á þessu keppnistímabili.
Rooney og van Persie hafa leikið saman í fremstu víglínu United í haust með góðum árangri. United keypti Hollendinginn af Arsenal í sumar og hann hefur þegar skorað 14 mörk í öllum leikjum fyrir félagið. Hann kom inná gegn Braga í vikunni og hressti heldur betur uppá lið United sem var 1:0 undir. Jafnaði í 1:1 og enska liðið skoraði tvívegis í kjölfarið.
„Þegar við skoðum þau lið sem hafa unnið Meistaradeildina, þá hafa þau verið með einstaklinga sem geta gert útslagið, töfrað eitthvað fram. Robin er stórkostlegur leikmaður. Hann er mjög yfirvegaður, heldur boltanum vel og virkjar aðra í spili í kringum sig. Hann er frábær fyrir liðið í heild og er okkar lykilmaður. Ef leikmenn ná að spila vel í kringum hann nýtist það öllum,“ sagði Rooney í viðtali við götublaðið The Sun í dag.
„Síðasta tímabil var hans besta með Arsenal hvað markaskorun varðar. Hann hefur í seinni tíð spilað framar og komið sér í betri færi en áður. Hann er frábær í teignum, sterkur og heldur boltanum. Stórkostlegur leikmaður og strákur sem gaman er að hafa í hópnum,“ sagði Wayne Rooney.