Arsenal fór létt með nágranna sína í Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Emirates-leikvanginum í London í dag og sigraði nákvæmlega eins og á síðasta tímabili, 5:2, eftir að hafa lent undir snemma leiks.
Emmanuel Adebayor kom Tottenham yfir en var síðan rekinn af velli á 17. mínútu. Arsenal nýtti sér heldur betur liðsmuninn. Per Mertesacker, Lukas Podolski og Oliver Giroud skoruðu fyrir hlé, 3:1. Santi Cazorla bætti við fjórða markinu, Gareth Bale minnkaði muninn, en Theo Walcott innsiglaði sigur Arsenal með fimmta markinu í uppbótartíma leiksins.
Gylfi Þór Sigurðsson var varamaður hjá Tottenham og kom ekkert við sögu í leiknum.
Arsenal er nú komið í 6. sæti deildarinnar með 19 stig en Tottenham seig niður í 8. sætið með 17 stig.
Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is:
90+4. - Leik lokið með sannfærandi sigri Arsenal.
90+1. MARK - 5:2. Og þetta er orðið eins og í fyrra. Alex Oxlade-Chamberlain brunar upp hægra megin og rennir boltanum fyrir á Theo Walcott sem skorar úr miðjum vítateig.
86. Alex Oxlade-Chamberlain kemur inn á fyrir Olivier Giroud hjá Arsenal.
80. André Santos kemur inn á fyrir Lukas Podolski hjá Arsenal, nokkrum sekúndum eftir að Podolski fær gula spjaldið.
72. Ekki fær Gylfi Þór Sigurðsson tækifæri í dag. Síðasta skipting Tottenham, Tom Carroll kemur inn á fyrir Tom Huddlestone. Hjá Arsenal er Aaron Ramsey kominn inná fyrir Jack Wilshere.
70. MARK - 4:2. Tottenham er enn á lífi. Gareth Bale fær boltann frá Sandro á miðjum vallarhelmingi Arsenal, leikur í átt að vítateig og tekur síðan skot með hægri fæti af 20 metra færi, fast og með jörðinni í vinstra hornið. Vel gert. Hann getur ekki bara skotið með vinstri!
66. Sandro hjá Tottenham fær gula spjaldið fyrir að brjóta á Olivier Giroud.
60. MARK - 4:1. Nú er Arsenal væntanlega búið að gera út um leikinn. Santi Cazorla bindur lokahnútinn á góða sókn eftir sendingu frá Lukas Podolski frá vinstri kantinum.
46. Seinni hálfleikur hafinn. Tvöföld skipting hjá Tottenham. Clint Dempsey og Michael Dawson koma fyrir bakverðina Kyle Walker og Kyle Naughton.
45+2. Hálfleikur og Arsenal er með afar vænlega stöðu, 3:1 yfir, með algjöra yfirburði síðustu 25 mínúturnar, og Tottenham manni færri eftir að Emmanuel Adebayor fékk rauða spjaldið á 17. mínútu.
45+1. MARK - 3:1. Þetta kemur ekki á óvart. Látlaus sókn Arsenal og þriðja markið er staðreynd. Santi Cazorla brýst af harðfylgi inn í vítateiginn vinstra megin og sendir boltann í átt að markteignum þar sem Olivier Giroud kemur á ferðinni og skorar með viðstöðulausu skoti í vinstra hornið.
45. Aaron Lennon hjá Tottenham fær gula spjaldið fyrir að brjóta á Thomas Vermaelen.
42. MARK - 2:1. Og þetta lá í loftinu. Mikel Arteta reynir að brjótast í gegnum miðja vörn Tottenham en boltinn fellur fyrir Lukas Podolski í miðjum vítateignum og hann kemur honum í netið með lausu skoti í hægra hornið. Breytir stefnu af William Gallas og Lloris á ekki möguleika.
40. Aftur er Hugo Lloris á réttum stað þegar hann ver fastan skalla frá Olivier Giroud.
31. Hugo Lloris, franski markvörðurinn hjá Tottenham, kemur í veg fyrir að Arsenal nái forystunni þegar hann ver skalla frá landa sínum Olivier Giroud á glæsilegan hátt. Strax í kjölfarið á Santi Cazorla flotta skottilraun af 25 m færi og hárfínt yfir mark Tottenham.
24. MARK - 1:1. Arsenal er ekki lengi að nýta sér liðsmuninn. Theo Walcott fær sendingu upp hægri kantinn og á góða fyrirgjöf inn í vítateiginn þar sem þýski miðvörðurinn Per Mertesacker kemur á ferðinni og skorar með óverjandi skalla upp í hægra hornið. Góður tímapunktur fyrir Þjóðverjann til að skora sitt fyrsta mark fyrir Arsenal.
17. RAUTT - Emmanuel Adebayor hefur lokið keppni. Hann fer í stórhættulega tæklingu á Santi Cazorla á miðjum vellinum og Howard Webb rekur hann af velli. Ekkert annað hægt að gera.
13. Engu munar að Tottenham bæti við marki þegar Aaron Lennon á skot hægra megin úr vítateignum og hárfínt framhjá stöng Arsenalmarksins vinstra megin.
12. Emmanuel Adebayor hefur nú skorað tíu mörk í nágrannaleikjum Arsenal og Tottenham, fyrir bæði félögin.
10. MARK - 0:1. Tottenham er komið yfir. Jan Vertonghen með sendingu innfyrir vörn Arsenal. Jermain Defoe með skot, Szczesny ver en Emmanuel Adebayor fylgir á eftir og skorar gegn sínu gamla félagi.
9. Boltinn liggur í marki Arsenal, William Gallas skorar, en hann er rangstæður! Sat eftir þegar Arsenal hreinsaði frá, fékk sendingu strax til baka og var þá fyrir innan vörnina.
1. Leikurinn er hafinn. Tottenham spilar 4-4-2 í fyrsta sinn í deildinni í haust, með Jermain Defoe og Emmanuel Adebayor frammi, en engan sóknartengilið. Clint Dempsey og Gylfi Þór Sigurðsson eru báðir á bekknum en annar þeirra gæti komið inn á fyrir annan framherjanna þegar líður á leikinn.
Arsenal: Szczesny, Sagna, Mertesacker, Koscielny, Vermaelen, Wilshere, Arteta, Cazorla, Walcott, Giroud, Podolski.
Varamenn: Mannone, Andre Santos, Oxlade-Chamberlain, Ramsey, Coquelin, Arshavin, Jenkinson.
Tottenham: Lloris, Walker, Gallas, Vertonghen, Naughton, Lennon, Sandro, Huddlestone, Bale, Adebayor, Defoe.
Varamenn: Friedel, Dempsey, Dawson, Gylfi, Livermore, Townsend, Carroll.