Stuðningsmaður Tottenham stunginn í Róm

Óttast er að Jermain Defoe og aðrir þeldökkir leikmenn Tottenham …
Óttast er að Jermain Defoe og aðrir þeldökkir leikmenn Tottenham verði fyrir kynþáttaníði í kvöld. AFP

Heitt er í kolunum fyrir leik Tottenham og Lazio í Rómaborg í J-riðli Evrópudeildarinnar í knattspyrnu í kvöld kl. 18. Einn stuðningsmaður Tottenham meiddist alvarlega þegar stuðningsmenn Lazio réðust inn á bar í Róm.

Hundruð stuðningsmanna Tottenham eru í Róm vegna leiksins en stuðningsmaðurinn sem um ræðir var stunginn svo að slagæð opnaðist. Níu aðrir stuðningsmenn Tottenham meiddust í áflogum.

Samkvæmt frétt BBC réðust 30 stuðningsmenn Lazio, grímuklæddir og vopnaðir járnkylfum, inn á bar þar sem stuðningsmenn Tottenham höfðu komið sér fyrir.

André Villas-Boas, knattspyrnustjóri Tottenham, hafði lýst yfir áhyggjum af ólátum í Róm vegna leiksins. Sumir stuðningsmanna Lazio hafa í gegnum tíðina verið kenndir við fasisma, en félagið var styrkt af Mussolini á sínum tíma, en gyðingar hafa aftur á móti í gegnum tíðina verið stór hluti stuðningsmannahóps Tottenham.

Lazio er í efsta sæti J-riðilsins með 8 stig fyrir leiki dagsins en Tottenham er með 6, Maribor 4 og Panathinaikos 2.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert