Samtök enskra knattspyrnudómara hafa lýst yfir vanþóknun á þriggja leikja banninu sem John Mikel Obi, miðjumaður Chelsea, fékk fyrir framkomu sína við Mark Clattenburg dómara eftir leik liðsins við Manchester United í úrvalsdeildinni í október.
Í yfirlýsingu samtakanna segi að refsingin sé ótrúlega væg, miðað við framkomu Mikels, sem hefði fengið langt bann ef atvikið hefði átt sér stað í unglingaflokki. Fyrir það að fara inn í klefa dómarans, eins og Mikel hefði gert, og ógna honum á þann hátt að hann hefði talið sig í hættu, væri ekki hægt að beita sömu refsingu og fyrir að vera rekinn af velli fyrir alvarlegt leikbrot.
Mikel fékk þriggja leikja bann og 60 þúsund punda sekt í gær og enska knattspyrnusambandið sagði þá að refsingin hefði verið mun vægari en ella vegna þess að Mikel hefði talið sig hafa orðið fyrir kynþáttaníði af hálfu dómarans.
Clattenburg hefur verið hreinsaður af þeim áburði og er byrjaður að dæma á ný en hann var í fjögurra vikna fríi frá dómgæslunni á meðan málið var í rannsókn.