Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal viðurkennir að liðið hafi haft heppnina með sér í dag þegar Santi Cazorla fiskaði fyrri vítaspyrnu liðsins í 2:0 sigrinum á WBA en svo virtist sem að um hreinan leikaraskap væri að ræða af hálfu Spánverjans.
„Við spiluðum heilt yfir vel, sköpuðum færi og héldum markinu hreinu. Við höfðum ekki efni á að missa af stigum og mér fannst þessi dagur boða gott. Ég hefði verið rólegri ef við hefðum nýtt færin betur. Við vorum svolítið taugaóstyrkir enda með bakið upp við vegg,“ sagði Wenger en Arsenal fór úr 10. sæti upp í það sjötta með sigrinum.
Aðspurður hvort heppnin hefði verið með Arsenal þegar Cazorla krækti í vítið sitt sagði Wenger:
„Já, svolítið. En ég talaði við Cazorla og hann sagði að hann [Steven Reid] hefði fellt sig,“ sagði Wenger.