Liverpool upp í tíunda sætið

Glen Johnson er hér með boltann á Upton Park í …
Glen Johnson er hér með boltann á Upton Park í dag en hann skoraði fyrsta mark leiksins. AFP

Liverpool komst upp fyrir West Ham á markatölu í 10. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með torsóttum en kærkomnum 3:2-sigri á Upton Park í dag. West Ham var 2:1 yfir þegar um korter var til leiksloka.

Glen Johnson kom Liverpool í 1:0 með fallegu marki en heimamenn sneru leiknum sér í vil fyrir leikhlé með marki Mark Noble úr vítaspyrnu og sjálfsmarki Steven Gerrard. Joe Cole jafnaði svo metin á 76. mínútu og skömmu síðar skoraði James Collins sjálfsmark eftir fyrirgjöf frá Jordan Henderson.

Liverpool og West Ham eru með 22 stig, fjórum stigum frá 4. sæti deildarinnar.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

90. LEIK LOKIÐ.

79. MARK! (2:3) Liverpool er komið yfir á nýjan leik! Jordan Henderson átti fyrirgjöf frá hægri og Jonjo Shelvey var í baráttu við James Collins um að ná til boltans. Knötturinn endaði í netinu og svo virtist sem Collins hefði náð til hans frekar en Shelvey. Annað sjálfsmark leiksins.

76. MARK! (2:2) Raheem Sterling gaf góða stungusendingu á Joe Cole sem hikaði aðeins áður en hann skaut góðu skoti vinstra megin úr teignum neðst í fjærhornið.

68. West Ham er enn með forystuna. Raheem Sterling átti ágætt skot frá vítateigslínu en Jussi Jääskeläinen varði vel í horn.

45. HÁLFLEIKUR.

43. MARK! (1:2) Matt Jarvis spyrnti boltanum fyrir mark Liverpool og þar varð Steven Gerrard fyrir því óláni að skila boltanum í eigið mark.

36. MARK! (1:1) West Ham jafnaði metin með marki frá Mark Noble úr vítaspyrnu eftir að Joe Allen varði óvart skot með hendi utarlega í vítateignum. Skotið var af mjög stuttu færi en líklega ekki um annað að ræða en að dæma víti.

27. Joe Cole kom inná í stað José Enrique sem varð að fara meiddur af velli.

11. MARK! (0:1) Glæsimark! Bakvörðurinn Glen Johnson kom með boltann frá hægri inn að vítateignum þar sem hann skaut óverjandi skoti upp í vinstra markhornið.

1. LEIKUR HAFINN.

0. Luis Suárez markahæsti leikmaður Liverpool er ekki með liðinu í dag þar sem hann tekur út leikbann.

West Ham: Jääskeläinen, Demel, Reid, Collins, O'Brien, Diame, Nolan, Noble, Taylor, Cole, Jarvis.
Varamenn: Spiegel, McCartney,Tomkins, Spence, O'Neil, Moncur, Maiga.

Liverpool: Reina, Johnson, Enrique, Skrtel, Agger, Lucas, Allen, Gerrard, Sterling, Downing, Shelvey.
Varamenn: Jones, Cole, Henderson, Coates, Carragher, Suso, Morgan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert