Lögregluyfirvöld í Northumbriu á norðaustur Englandi hafa staðfest að þau hafi fengið til sín kvörtun vegna meints kynþáttaníðs frá áhorfendum á leik Newcastle og Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag, sem beinist að Aleksandar Kolarov, leikmanni City.
Sky Sports segir að tveir stuðningsmenn af albönsku bergi brotnir, sem voru með fána þjóðar sinnar á vellinum, hafi lagt inn kvörtunina eftir leikinn en fullyrt hefur verið að Kolarov, sem er serbneskur landsliðsmaður, hafi kallað til þeirra á niðurlægjandi hátt á meðan hann hitaði upp fyrir leikinn.
Í tilkynningu frá lögreglunni í Northumbriu segir að slíkar kvartanir séu teknar mjög alvarlegar og málið sé í rannsókn. Grunnt hefur verið á því góða lengi á milli serbneskra og albanskra þjóðarbrota á Englandi.