Ba sendi Arsenal skýr skilaboð

Demba Ba fagna marki fyrir Newcastle.
Demba Ba fagna marki fyrir Newcastle. AFP

Demba Ba, senegalski framherjinn hjá Newcastle, sendi Arsenal skýr skilaboð í kvöld um að félagið gæti keypt sig í janúar og að hann væri vel til í að fara þangað.

Í samningi Ba við Newcastle er ákvæði um að hann geti farið ef annað félag býður í hann 7 milljónir punda. Eftir frammistöðu hans þar, ekki síst þar sem hann hefur þegar skorað 11 mörk fyrir liðið í úrvalsdeildinni á þessu tímabili, er talið fullvíst að hann yfirgefi félagið í næsta mánuði.

„Arsenal er eitt af þeim liðum sem mann dreymir um. En ég get ekkert sagt um þær vangaveltur. Það hefur ekkert gerst. Fjölmiðlarnir vita að Arsenal vantar sóknarmann og Arsenal veit um ákvæðið í mínum samningi. Þeir verða að ákveða sig,“ sagði Ba í viðtali við frönsku sjónvarpsstöððina Canal +.

Arsene Wenger knattspyrnustjóri hefur áhuga á Ba og talið að sama sé að segja um Brendan Rodgers hjá Liverpool en því hefur verið spáð að þessi tvö félög sláist um Senegalann í janúar.

Sunday Mirror fullyrti í dag að Ba hefði hafnað nýjum samningi við Newcastle sem hefði fært honum 70 þúsund pund á viku og að hann krefjist þess að fá 90 þúsund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert