Rússneski knattspyrnumaðurinn Andrei Arshavin fer frá Arsenal til Reading í byrjun janúar, ef marka má enska netmiðilinn Goal.com, sem fullyrðir að félagaskiptin séu svo gott sem í höfn.
Arshavin hefur fá tækifæri fengið með Arsenal undanfarin misseri og var í láni hjá Zenit St. Pétursborg fyrri hluta þessa árs. Landar hans eru til staðar hjá Reading því aðaleigandi er Anton Zingarevich, rússneskur auðkýfingur, og félagið fékk rússneska framherjann Pavel Pogrebnjak til sín fyrir tímabilið.
Arshavin hefur aðeins komið við sögu í sex af 18 leikjum Arsenal í úrvalsdeildinni á þessu tímabili og ekki skorað mark. Hann er 31 árs og kom upphaflega til Arsenal frá Zenit árið 2008.