Óvæntur frami spænska framherjans Michu með Swansea City í vetur er nú að bera ávöxt að því leyti að hann mun fá tækifæri til að spila með heims- og Evrópumeisturum Spánverja í fyrsta skipti í febrúar.
Vicente del Bosque, landsliðsþjálfari Spánverja, staðfesti í dag að Michu væri annar tveggja nýliða sem yrðu í hópi sínum fyrir vináttulandsleik gegn Úrúgvæ 6. febúar. Hinn er Iago Aspas, sem hefur slegið í gegn með Celta Vigo á Spáni og hefur einmitt verið sterklega orðaður við Swansea í breskum fjölmiðlum að undanförnu.
Michu er markahæstur í ensku úrvalsdeildinni með 13 mörk en Swansea keypti hann fyrir aðeins 2 milljónir punda af Rayo Vallecano í sumar. Hann lék áður með Celta Vigo og Real Oviedo.