Patrice Evra, franski bakvörðurinn hjá Manchester United, kveðst eiga von á alvarlegum afleiðingum ef liðið geri það sama og síðasta vetur og missi niður forskotið sem það hefur nú náð á Englandsmeistara Manchester City.
United var þá með átta stiga forskot á City þegar fimm umferðum var ólokið en City tókst að hirða meistaratitilinn á lokasekúndunum í síðasta leik. Evra sagði við Canal Plus í dag að ef það myndi endurtaka sig væri hann hræddur um að missa vinnuna.
„Við vorum með samskonar forskot í fyrra en töpuðum samt deildinni á markatölu. Ef það gerst aftur mun Alex Ferguson reka okkur alla,“ sagði Evra og upplýsti að eftir sigurinn á Newcastle í gær, 4:3, hefði stemningin verið sú besta í hópnum til þessa í vetur.
„Ég hef aldrei í vetur séð strákana svona glaða eftir leik. Ferguson sagði við okkur í hálfleik að ef við myndum snúa þessum leik við og vinna hann ættum við frábæra möguleika á að verða Englandsmeistarar,“ sagði Evra ennfremur.
Manchester United er með sjö stigum meira en City og tekur á móti WBA í síðasta leik sínum á árunu á Old Trafford á laugardaginn.