Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United skóf ekki utan af hlutunum á fréttamannafundi sínum í morgun þegar umræðuefnið var framkoma hans við dómarana í leik liðsins við Newcastle í fyrradag.
Mike Dean dómari skráði ekkert um Ferguson í skýrslu sína eftir leikinn, enda þótt hann hefði sagt þremenningunum til syndanna í hálfleik, óánægður með að annað mark Newcastle fengi að standa.
Ferguson varði framkomu sína með kjafti og klóm og sendi Newcastle og Alan Pardew, stjóranum þar, tóninn í leiðinni.
„Ég var ákveðinn en fór ekki yfir strikið. Fjölmiðlarnir hafa farið á kostum og talað við alla nema Barak Obama um málið. Hann var bara upptekinn. Svo óheppilega vill til að ég er knattspyrnustjóri stærsta félags heims en ekki hjá Newcastle sem er bara smálið á Norðausturlandi," sagði Ferguson og hélt áfram:
„Ég var ákveðinn, ég er alltaf ákveðinn. Það vita allir. Ég er tilfinningaríkur en ég var ekki meiðandi. Ég kallaði í Mike og við gengum í áttina að hvor öðrum. Ég gekk bara þrjá til fjóra metra inná völlinn. Það er búið að gera of mikið úr því. Vandamál mitt er að félagið mitt er svo stórt.
Alan Pardew steig fram og gagnrýndi mig. Hann er sá versti í garð dómara. Hann hrindir þeim og finnst það svo bara fyndið. Það er ótrúlegt að hann skyldi gagnrýna mig. Hann gleymir því þegar ég kom honum til hjálpar," sagði Ferguson og var heitt í hamsi.
Hann vitnaði þarna til þess þegar Pardew hrinti aðstoðardómara í leik Newcastle og Tottenham í ágúst og fékk í kjölfarið tveggja leikja bann og 20 þúsund punda sekt.