Arsenal vann Newcastle í tíu marka leik

Walcott fagnar í dag.
Walcott fagnar í dag. AFP

Arsenal lyfti sér upp í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með sigri á Newcastle, 7:3, í ótrúlegum leik á Emirates-vellinum í London í dag.

Newcastle jafnaði leikinn þrívegis, síðast í 3:3 á 69. mínútu þegar Demba Ba skoraði annað mark sitt í leiknum. Eftir það skoraði Arsenal fjögur mörk og innbyrti stórsigur, 7:3.

Theo Walcott fór á kostum og skoraði þrennu en Frakkinn Oliver Giroud kom inná sem varamaður undir lokin og skoraði tvö mörk.

Arsenal á enn leik til góða gegn West Ham en hann átti að fara fram annan í jólum en var frestað. Newcastle er í 15. sæti deildarinnar með 20 stig.

90.+5 LEIK LOKIÐ

90.+2 MARK! - 7:3. Þrennan fullkomnuð hjá Theo Walcott. Stórbrotið mark. Fór illa með tvo varnarmenn  Newcastle og var svo tekinn niður. Chris Foy dæmdi ekkert þannig að Walcott stóð bara á fætur og lyfti boltanum yfir Krul af stuttu færi. Þvílíkt mark!

87. MARK! - 6:3. Enn bætir Arsenal við marki. Oliver Giroud skorar sitt annað mark með föstu skoti úr teignum. Newcastle-menn vildu aukaspyrnu dæmda á Walcott í aðdraganda marksins en það gildir.

84. MARK! - 5:3. Þá er þetta komið hjá Arsenal. Oliver Giroud skallar boltann í netið af stuttu færi eftir fallega fyrirgjöf frá Walcott.

73. MARK! - 4:3. Þetta hættir ekki. Theo Walcott bætir við öðru marki sínu með fallegu skoti úr teignum. Getur Newcastle komið til baka í fjórða skiptið?

69. MARK! - 3:3. Þvílík veisla. Sylvain Marveaux gefur stórkostlega utanfótarsendingu frá vinstri og á fjærstöngina er mættur hver annar en Demba Ba sem skorar með viðstöðulausu skoti af stuttu færi.

64. MARK! - 3:2. Arsenal ekki lengi að komast aftur yfir. Wilshere gefur boltann fyrir frá vinstri af stuttu færi. Tim Krul er illa staðsettur en Coloccini er fyrstur á boltann. Hann nær ekki að skalla knöttinn yfir markið og í horn heldur fer hann í slána og þaðan til Lukas Podolski sem stangar boltann í netið af innan við eins metra færi. Nú verður þetta erfitt fyrir Newcastle sem spilaði síðast á annan dag jóla en Arsenal hefur fengið viku hvíld.

59. MARK! - 2:2. Aftur jafnar Newcastle. Gabriel Obertan fer illa með Bacary Sagna og gefur fyrir markið frá vinstri. Boltinn fer af Laurent Koscielny og þaðan á fjærstöngina þar sem Sylvain Marveaux sem hefur lítið fyrir því að pota boltanum yfir línuna af eins metra færi. Fyrsta mark Frakkans í úrvalsdeildinni.

50. MARK! - 2:1. Santi Cazorla leggur boltann fyrir Alex Oxlade-Chamberlain sem á þrumuskot fyrir utan teig og boltinn steinliggur í netinu. Varnarleikur Davids Santons ekki merkilegur frekar en í fyrra marki Arsenal.

46. Seinni hálfleikur hefst.

45. HÁLFLEIKUR

43. MARK! - 1:1. Newcastle jafnar metin og að sjálfsögðu skorar Demba Ba. Tólfta mark kappans á leiktíðinni. Gestirnir fá aukaspyrnu rétt fyrir utan teig sem Senegalinn tekur. Hann spyrnir boltanum í Jack Wilshere sem breytir stefnu boltans og þaðan fer hann í netið.

20. MARK! - 1:0. Heimamenn taka forustuna. Theo Walcott fær sendingu inn fyrir vörnina og afgreiðir færið snyrtilega með innanfótarskoti.

1. Leikurinn er hafinn.

Arsenal: Szczesny, Sagna, Koscielny, Vermaelen, Gibbs, Arteta, Wilshere, Oxlade-Chamberlain, Cazorla, Podolski, Walcott.
Newcastle: Krul, Simpson, Perch, Coloccini, Santon, Bigirimana, Tiote, Cisse, Marveaux, Obertan, Ba.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert