Óvæntur sigur QPR - Liverpool vann 3:0

Surez fagnar öðru marki sínu í kvöld.
Surez fagnar öðru marki sínu í kvöld. AFP

QPR vann afar óvæntan sigur á Chelsea, 1:0, á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld en Shaun Wright-Phillips skoraði eina markið á 78. mínútu leiksins.

QPR er samt sem áður enn á botninum með 13 stig en nú aðeins fimm stigum frá öruggu sæti. Chelsea er í fjórða sæti með 38 stig en á leik til góða.

Á Anfield í Liverpool áttu heimamenn í engum vandræðum með að leggja Sunderland að velli, 3:0, en þar fór Luis Suárez hamförum og skoraði tvö mörk auk þess sem hann lagði upp eitt fyrir Raheem Sterling.

Suárez er búinn að skora 15 mörk í úrvalsdeildinni fyrir Liverpool sem er nú aðeins fimm stigum frá Evrópusæti.

Papiss Cissé kom Newcastle yfir gegn Everton á heimavelli í kvöld en Leighton Baines jafnaði metin með þrumuskoti beint úr aukaspyrnu á 43. mínútu. Í seinni hálfleik skoraði Viktor Anichebe svo sigurmark Everton, 2:1.

Everton er í fimmta sæti úrvalsdeildarinnar með 38 stig en Newcastle er í 15. sæti með 20 stig, tveimur stigum frá falli.

Chelsea - QPR 0:1 LL
Shaun Wright-Phillips 78.
Liverpool - Sunderland 3:0 LL
Raheem Sterling 19., Luis Suárez 26., 53.
Newcastle - Everton 1:2 LL
Papiss Cissé 2. - Leighton Baines 43., Victor Anichebe 60.

---

21.54 Leik lokið hjá Newcastle og Everton, 1:2.

21.46 Uppbótartími á St. James' Park verður að minnsta kosti 6 mínútur þar sem hlúa þurfti að Phil Neville og Anichebe áðan þegar þeir skullu saman.

21.36 79 mínútur á klukkunni á St. James' Park þar sem Everton er yfir, 2:1.

21.36 Leik lokið hjá Chelsea og QPR, 0:1.

21.35 Leik lokið hjá Liverpool og Sunderland, 3:0.

21.21 MARK! Chelsea 0:1 QPR. Botnliðið tekur forustuna. Shaun Wright-Phillips skorar með góðu skoti fyrir utan teig sem steinliggur í bláhorninu. Óvænt á Brúnni.

21.17 MARK! Newcastle 1:2 Everton. Gestirnir taka forstuna eftir að hafa lent undir. Victor Anichebe skorar af stuttu færi eftir sendingu inn á markteiginn frá Jelavic.

21.13 Eftir 70 mínútur er enn markalaust á Stamford Bridge. Ætlar QPR að ná í óvænt stig gegn Chelsea?

21.03 Seinni hálfleikur hafinn á St. James' Park.

20.55 MARK! Liverpool 3:0 Sunderland. Luis Suárez bætir við öðru marki sínu í leiknum. Hann fær stórkostlega 60 metra sendingu frá Steven Gerrard inn fyrir vörnina og leggur boltann framhjá Mignolet.

20.47 Seinni hálfleikur hafinn á Anfield og á Brúnni.

20.44 MARK! Newcastle 1:1 Everton. Leighton Baines jafnar metin með marki beint úr aukaspyrnu. Hann gjörsamlega dúndrar boltanum í markmannshornið. Skotin verða ekki mikið fastari en þetta.

20.31 Það er hálfleikur í leikjunum sem hófust klukkan 19.45.

20.11 MARK! Liverpool 2:0 Sunderland. Heimamenn komnir í góða stöðu. Luis Suárez stendur af sér brot úti á hægri vængnum, brunar að marki og skorar sitt fjórtánda mark á tímabilinu.

20.03 MARK! Liverpool 1:0 Sunderland. Eftir stórkostlega sendingu inn fyrir vörnina frá Luis Suárez skorar Raheem Sterling með því að vippa yfir Mignolet í markinu.

20.02 MARK! Newcastle 1:0 Everton. Tim Krul með langa aukaspyrnu sem skoppar einu sinni yfir varnarmenn Everton og svo skallar Papiss Cissé boltann yfir Tim Howard.

20.00 Leikurinn á St. James' Park er hafinn.

19.57 Stewart Downing með frábæra aukaspyrnu sem Simon Mignolet ver meistaralega í horn. Flott spyrna hjá Downing.

19.53 Andre Wisdom með fyrstu skottilraun Liverpool en skot hans úr fínu færi fer hátt yfir.

19.45 Leikirnir á Anfield og Stamford Bridge eru hafnir.

19.08 Ross Turnbull byrjar í marki Chelsea þar sem Petr Cech er meiddur og Andre Wisdom er í byrjunarliði Liverpool sem mætir Sunderland. Byrjunarliðin má sjá hér að neðan.

Liverpool: Reina, Wisdom, Johnson, Agger, Skrtel, Gerrard, Henderson, Lucas, Downing, Sterling, Suarez.
Sunderland: Mignolet, Rose, Gardner, Kilgallon, Cuellar, Johnson, McClean, Larsson, Colback, Fletcher, Sessegnon

Chelsea: Turnbull; Azpilicueta, Cahill, Ivanovic, Bertrand, D Luiz, Lampard; Moses, Oscar, Marin, Torres
QPR: Cesar, Derry, Hill, Taarabt, Mackie, Granero, Onuoha, Nelsen, Fabio, Hoilett, Mbia.

Newcastle: Krul; Perch, Williamson, Coloccini, Santon; Tiote, Anita; Cisse, Marveaux, Obertan; Shola Ameobi.
Everton: Howard, Baines, Heitinga, Distin, Jagielka, Pienaar, Osman, Neville, Fellaini, Naismith, Jelavic. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert