Tottenham Hotspur vísaði í kvöld á bug ásökunum Alex Fergusons, knattspyrnustjóra Manchester United, um að félagið hefði staðið óheiðarlega að því að fá Zeki Fryers, fyrrverandi leikmann United, í sínar raðir.
„Zeki Fryers var samningslaus í sumar. Við höfðum áður skoðað möguleikann á að kaupa hann en gátum ekki fallist á kröfur Manchester United. Zeki ákvað að fara til Standard Liege, sem greiddi United bætur. Zeki líkaði vel hjá Standard, en þegar skipt var um þjálfara í nóvember var hann ekki lengur inni í myndinni, eins og gengur og gerist í fótboltanum. Hann vildi koma heim, fulltrúar hans höfðu samband við ensk lið, og þar með fengum við annað tækifæri til að semja við hann. Manchester United mun fá fimm prósent af því sem við greiddum fyrir hann, samkvæmt reglum FIFA,“ sagði talsmaður Tottenham við ESPN í kvöld.
Ferguson sagði við MUTV í dag að fingraför Daniels Levys, stjórnarformanns Tottenham, væru á málinu og knattspyrnuforystan í Englandi ætti að skoða hvað þarna hefði farið fram.
„Tottenham reyndi að kaupa hann af okkur og við vildum fá ákveðið verð. Þeir vildu ekki greiða það en báðu um að fá hann til reynslu, sem var í lagi því samningur hans var hvort eð er að renna út. Hann fór með þeim til Portúgals, þeir sögðust ekki tilbúnir til að kaupa hann, en síðan samdi hann skyndilega við Standard Liege.
Við vissum strax og það gerðist að hann myndi fara til Tottenham í janúar, og nú er það gengið eftir. Svona vinnur Levy, og við áttum von á þessu,“ sagði Ferguson.