Minnst fjögur úrvalsdeildarlið slegin út

Swansea og Arsenal mætast í bikarnum. Annaðhvort Jonathan de Guzman …
Swansea og Arsenal mætast í bikarnum. Annaðhvort Jonathan de Guzman eða Alex Oxlade-Chamberlain fellur úr keppni með sínu liði. AFP

Í það minnsta fjögur lið úr úrvalsdeildinni munu falla út strax í 3. umferð ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu sem leikin er um helgina.

Í fjórum viðureignum af 32 eru það lið úr úrvalsdeildinni sem eigast við og bæði bikarmeistarar Chelsea og topplið Manchester United þurfa að sækja heim önnur úrvalsdeildarlið.

Chelsea fer til Southampton og Manchester United heimsækir West Ham til London. Þá eigast QPR og WBA við og loks drógust Swansea og Arsenal saman.

Af þessum 32 leikjum fara 29 fram í dag, tveir á morgun, og umferðinni lýkur svo á mánudagskvöld með leik Cheltenham og Everton. Reyndar er nokkuð ljóst að ekki liggur fyrir strax um helgina hvaða 32 lið fara áfram því jafntefli eru leyfð í fyrstu tilraun í keppninni og ekki er leikið til þrautar fyrr en í annarri viðureign.

Fjögur úrvalsdeildarlið í viðbót mega búast við afar erfiðri baráttu fyrir því að komast í 4. umferðina en Newcastle, Sunderland, Stoke og Norwich þurfa öll að heimsækja B-deildarlið. Newcastle fer til Brighton, Sunderland fer til Bolton, Norwich fer til Peterborough og þá þarf Stoke að fara til London og mætir þar Crystal Palace.

Bikarkeppninni fylgir alltaf ákveðin rómantík og hún er kannski mest í kringum viðureign Tottenham og Coventry. Þessi lið mættust í bikarúrslitunum árið 1987 og þá vann Coventry óvæntan sigur, 3:2, þar sem félagið hreppti sinn fyrsta og eina stóra titil í sögunni. Þá var liðið reyndar í efstu deild en er núna í C-deildinni og ekki líklegt til afreka gegn Gylfa Þór Sigurðssyni og félögum á White Hart Lane þrátt fyrir gott gengi undanfarnar vikur.

Mansfield heppnasta utandeildaliðið

Svo er alltaf sjarmi í kringum utandeildaliðin sem ná að fara alla leið í gegnum forkeppnina og fyrstu tvær umferðir aðalkeppninnar. Mansfield er heppnast þeirra en liðið, sem er í 9. sæti E-deildar, fær Liverpool í heimsókn á sunnudaginn.

Tvö Íslendingalið heimsækja utandeildalið í dag. Heiðar Helguson, Aron Einar Gunnarsson og félagar í Cardiff, sem eru á toppi B-deildarinnar, fara til Macclesfield og mæta heimamönnum sem eru í 10. sæti E-deildar. Úlfarnir, með Björn Bergmann Sigurðarson og Eggert Gunnþór Jónsson í sínum röðum, fara til Luton, sem er kölluð Hattaborgin í Englandi. Luton Town, sem var í efstu deild fyrir 20 árum, er nú í 5. sæti E-deildar.

Mesta bikarævintýrið er þó hjá Hastings, sem er í sjöundu efstu deild í Englandi en er komið svona langt og heimsækir Middlesbrough.

Landsliðsmaðurinn Kári Árnason spilar með D-deildarliði Rotherham, sem er komið í 3. umferðina og á góða möguleika á að fara áfram. Rotherham dróst nefnilega gegn liði úr sömu deild, Aldershot.

Bikarleikirnir eru þessir:

Laugardagur:
12.30 Brighton - Newcastle
15.00 Aldershot - Rotherham
15.00 Aston Villa - Ipswich
15.00 Barnsley - Burnley
15.00 Blackburn - Bristol City
15.00 Bolton - Sunderland
15.00 Charlton - Huddersfield
15.00 Crawley - Reading
15.00 Crystal Palace - Stoke
15.00 Derby - Tranmere
15.00 Fulham - Blackpool
15.00 Hull - Leyton Orient
15.00 Leeds - Birmingham
15.00 Leicester - Burton Albion
15.00 Luton - Wolves
15.00 Macclesfield - Cardiff
15.00 Manchester City - Watford
15.00 Middlesbrough - Hastings
15.00 Millwall - Preston
15.00 Nottingham Forest - Oldham
15.00 Oxford United - Sheffield United
15.00 Peterborough - Norwich
15.00 QPR - WBA
15.00 Sheffield Wednesday - MK Dons
15.00 Southampton - Chelsea
15.00 Southend - Brentford
15.00 Tottenham - Coventry
15.00 Wigan - Bournemouth
17.15 West Ham - Manchester United
Sunnudagur:
13.30 Swansea - Arsenal
16.00 Mansfield - Liverpool
Mánudagur:
19.45 Cheltenham - Everton

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert