Enska knattspyrnufélagið Wolverhampton Wanderers, sem Björn Bergmann Sigurðarson og Eggert Gunnþór Jónsson leika með, staðfesti í kvöld að Dean Saunders yrði næsti knattspyrnustjóri félagsins.
Hann tekur við af Norðmanninum Ståle Solbakken sem var sagt upp í gær eftir fjórða tapleik liðsins í röð, gegn utandeildaliðinu Luton Town í ensku bikarkeppninni.
Í yfirlýsingu frá Wolves var sagt að eftir væri að ganga formlega frá ráðningunni og skýrt yrði frá henni nánar þegar það væri allt í höfn.
Saunders verður fjórði stjóri Úlfanna á aðeins einu ári en Mick McCarthy var sagt upp á síðasta tímabili, Terry Connor stýrði liðinu til vorsins og Solbakken tók við því í sumar.
Saunders kemur frá C-deildarliðinu Doncaster Rovers en framkvæmdastjórinn þar, Gavin Baldwin, staðfesti við BBC í kvöld að félagið hefði náð góðu samkomulagi við Wolves um að hann yrði leystur undan samningi við Doncaster.
Saunders tók við Doncaster í september 2011 og er kominn með liðið í eitt af toppsætum C-deildarinnar. Áður stýrði hann liði Wrexham og starfaði við þjálfun hjá Newcastle, Blackburn og Bradford City, og var aðstoðarþjálfari velska landsliðsins frá 2007 til 2010.
Sjálfur var Saunders, sem er 48 ára gamall, landsliðsmaður Wales og skoraði 22 mörk í 75 landsleikjum. Hann spilaði lengst með Aston Villa og Derby en einnig með Liverpool, Nottingham Forest, Galatasaray, Benfica, Bradford City, Sheffield United, Oxford, Brighton, Swansea og Cardiff. Samtals gerði hann 170 mörk í ensku deildakeppninni, í 574 leikjum, frá 1982 til 2001.