Laudrup: Best að eiga möguleika

Danny Graham fagnar seinna marki Swansea ásamt félögum sínum.
Danny Graham fagnar seinna marki Swansea ásamt félögum sínum. AFP

Michael Laudrup, knattspyrnustjóri Swansea City, var varkár í yfirlýsingum í kvöld þrátt fyrir ein bestu úrslitin í sögu félagsins þegar það lagði Evrópumeistara Chelsea, 2:0, á Stamford Bridge í fyrri leik liðanna í undanúrslitum enska deildabikarsins.

Liðin eiga eftir að mætast í Swansea eftir tvær vikur og þar þarf Chelsea að vinna tveggja til þriggja marka sigur til að snúa blaðinu við og komast í úrslitaleikinn.

„Satt best að segja er ég himinlifandi með þessi úrslit, það væri lygi hjá mér ef ég héldi öðru fram," sagði Laudrup við Sky Sports.

„Við höfum þegar unnið sögulega sigra í vetur, bæði á Anfield og Emirates. En það er dálítið sérstakt að leggja Evrópumeistarana að velli.

En við eigum enn langa leið fyrir höndum. Gæðin í liði Chelsea eru svo mikil og við þurfum að spila nákvæmlega eins og af sömu ákefð. Ég er ánægðastur með að við skulum fara í heimaleikinn með þann möguleika fyrir hendi að komast í úrslitaleik á Wembley," sagði Laudrup og hrósaði varnarleik sinna manna.

„Ég vissi að þetta yrði geysilega erfiður leikur. Þeir voru miklu meira með boltann en við, augljóslega. En samt fengu þeir í raun  bara þrjú dauðafæri. Þeir gáfu okkur bæði mörkin, en við þurftum samt að hafa fyrir því að skora þau. Jafnvel þó þessi tvö mörk væru strikið út, þá fékk Chelsea bara þrjú færi. Þetta var mögnuð barátta," sagði Daninn, léttur í lund.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert