Kenny Dalglish gæti verið á leið til starfa hjá Liverpool á ný, átta mánuðum eftir að hann var rekinn úr starfi knattspyrnustjóra félagsins.
Eigendur Liverpool, John W. Henry og Tom Werner, hafa í huga að bjóða Dalglish hans gamla starf, sem sendiherra félagsins, en þeir héldu öllum dyrum opnum fyrir hann síðasta vor og sögðu þá að Dalglish yrði alltaf hluti af Liverpool-fjölskyldunni.
BBC skýrir frá þessu og segir að samkvæmt sínum heimildum sé Brendan Rodgers knattspyrnustjóri, sem ráðinn var í stað Dalglishs, jákvæður fyrir hugmyndinni.
Dalglish var leikmaður Liverpool frá 1977 til 1990 og knattspyrnustjóri 1985-91 og 2011-2012.