Eggert Gunnþór Jónsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, hefur frestað ákvörðun um hvort hann yfirgefi enska B-deildarliðið Wolves í þessum mánuði. Eggert sagði í viðtali við Morgunblaðið í síðustu viku að hann sæi engar líkur á að fá tækifæri hjá knattspyrnustjóranum Ståle Solbakken.
Norðmaðurinn var hinsvegar rekinn um síðustu helgi. Dean Saunders tók við starfinu og hefur lýst því yfir að fyrir sér séu allir leikmenn Wolves jafnir, og byrji allir á núllpunkti þar sem þeir þurfi að sanna sig fyrir honum.
Magnús Agnar Magnússon, umboðsmaður Eggerts, staðfesti í gær að Eggert myndi láta á það reyna. „Við erum hinsvegar áfram með alla möguleika opna því það mikilvægasta er að Eggert spili, hvar sem hann verður,“ sagði Magnús Agnar.
Úlfarnir mæta Blackburn í kvöld og þar reynir fyrst á hvar Eggert og samherji hans Björn Bergmann Sigurðarson standa gagnvart nýjum stjóra. vs@mbl.is